Innlent

Sá yngsti og næstelsti starfa á sömu stofunni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Víðir Smári Petersen og Jónas A. Aðalsteinsson skömmu eftir að Víðir hafði lokið síðasta prófmáli sínu.
Víðir Smári Petersen og Jónas A. Aðalsteinsson skömmu eftir að Víðir hafði lokið síðasta prófmáli sínu. vísir/Ernir
Víðir Smári Petersen, lögmaður hjá LEX lögmannsstofu, flutti í gær sitt síðasta prófmál fyrir Hæstarétti og er því orðinn hæstaréttarlögmaður. Það er merkilegt fyrir þær sakir að Víðir er aðeins 28 ára gamall.

„Það fylgir þessu ákveðinn léttir,“ segir Víðir. Leiðin að hæstaréttarlögmanninum lengist nefnilega um eitt dómstig um næstu áramót þegar Landsréttur tekur til starfa. Því sitja lögmenn um möguleg prófmál til að klára dæmið sem fyrst.

„Þetta snýst auðvitað um að vera klókur og átta sig á því fyrirfram hvaða mál geta orðið prófmál. Ég skoðaði flipann yfir áfrýjuðu málin reglulega og hafði samband við lögmenn áður en það lá ljóst fyrir hvort þau yrðu fimm manna mál eður ei,“ segir Víðir. „Það er einn lykillinn, sjá hverju hefur verið áfrýjað og stúdera þau mál.“

Ferilskrá Víðis ber ekki vott um ungan aldur en orð hefur verið haft á því að hún gefi til kynna að hann sé tíu árum eldri en hann er í raun. Hann lauk laganámi 2011, hlaut málaflutningsréttindi sama ár, lauk LL.M. gráðu frá Harvard árið 2015, hefur kennt við HÍ síðan 2011 og var ráðinn aðjúnkt árið 2016. Víðir segist þó hafa hlotið einn mesta lærdóminn frá eldri lögmönnum.

„Það er ómetanlegt að hafa reynslubolta í kringum sig enda mikil reynsla og þekking sem býr að baki hjá þeim,“ segir Víðir.

Í hópi reynslubolta þeirra sem Víðir vísar til er einn stofnenda LEX, Jónas A. Aðalsteinsson. Sá er fæddur árið 1934, 83 ára gamall, og lauk prófi frá lagadeild 1962. Að sögn Víðis er það um það leyti sem móðir hans fæddist. Jónas hefur staðið að rekstri lögmannsstofa frá árinu 1965 og segir að það séu ekki aðeins þeir eldri sem miðli reynslu til hinna yngri.

„Maður nýtur þess aldeilis að vera innan um þetta unga fólk. Það er nefnilega svo að þar eru á ferðinni viskubrunnar sem koma með nýjungarnar til manns,“ segir Jónas. Hann er næstelsti lögmaður landsins með virk réttindi.

„Það eru forréttindi að fá að vera á svona jákvæðum vinnustað og skemmtilegum með þessu góða fólki. Svo gerir maður líka einstaka sinnum gagn og tekst að leysa mál,“ segir Jónas og hlær.

Með hækkandi aldri hefur Jónas valið sín mál af kostgæfni og það aukist að hann deili þeim út til kollega sinna. Hann hefur það að leiðarljósi að reyna að leysa mál á sem jákvæðastan hátt fyrir alla aðila. „Maður reynir að komast hjá því að fara fyrir dómstóla eins lengi og maður getur. Leysa málin milli aðila sjálfra,“ segir Jónas.

Í dag verður haldið upp á það að Víðir hafi öðlast réttindin með svokölluðu „hrl.-boði“. Í gegnum tíðina hefur það tíðkast að nýbakaðir hæstaréttarlögmenn bjóði kollegum úr lagaheiminum í slíkan gleðskap. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×