„Þetta eru hrikaleg mistök sem hafa átt sér stað við gerð reiðvegarins og bæði mönnum og dýrum stendur ógn af þessum vegi,“ segir Sigfús Ólafur Helgason, framkvæmdastjóri hestamannafélagsins Léttis á Akureyri. Reiðvegurinn sem um ræðir tengir hesthúsahverfi hestamanna á Akureyri við náttúruperluna Eyjafjörð og er fjölfarinn alla daga.

Guðríður Friðriksdóttir, sviðstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, segir vinnu vera hafna við að bæta úr þessu. „Þetta er til skammar og við leggjum mikla áherslu á að úr þessu sé bætt. Verktakar sem unnu verkið eru að vinna að því að skipta út þessum jarðvegi. Þetta er ekki boðlegt eins og þetta var,“ segir Guðríður. „Við höfum tekið á þessu og munum fylgja þessu eftir.“
Þegar blaðamaður kannaði aðstæður í gær mátti sjá mikið af gömlum glerflöskum, ampúlum og postulíni í vegöxlum beggja vegna. Ljúka á við lagfæringar á veginum á næstu dögum en bæði gangandi og ríðandi vegfarendur fara um veginn dagsdaglega.