Erlent

Lítið gengur að ráða við loftmengun á Indlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Suranga Lakmal, leikmaður Sri Lanka, ældi á völlinn í Nýju-Delí, svo megn var mengunin í loftinu.
Suranga Lakmal, leikmaður Sri Lanka, ældi á völlinn í Nýju-Delí, svo megn var mengunin í loftinu. Vísir/AFP
Indversk stjórnvöld stefna nú að því að reyna að draga úr loftmengun í höfuðborginni Nýju-Delí fyrir næsta vetur.  Mikil mengunarþoka legst yfir borgina á hverjum vetri með skaðlegum áhrifum fyrri heilsu fólks. Tveir krikketleikmenn seldu upp í leik í borginni vegna mengunarinnar í gær.

Bruni á uppskeru í nærliggjandi sveitum, útblástur farartækja, losun frá iðnaði og ryk frá framkvæmdum legst á eitt um að mynda mengunarský yfir borginni, sérstaklega þegar kólnar í veðri á veturna.

Reuters-fréttastofan segir að starfshópur á vegum Narendra Modi, forsætisráðherra, vinni nú að aðgerðum til að draga úr menguninni fyrir næsta vetur. Stærsta orkufyrirtæki landsins hefur boðið út tæknibúnað til að hreinsa útblástur frá tveimur kolaorkuverum nærri Nýju-Delí.

Þegar kólna tekur í veðri á veturna og minni hreyfing er á loftinu er hætta á að mengunarpollur myndist yfir Nýju-Delí eins og nú hefur gerst.Vísir/AFP
Umhverfisverndarsinnar segja aðgerðirnar hins vegar ganga of skammt. Sunil Dahiya, einn stjórnenda Grænfriðunga á Indlandi, segir að stjórnvöld hafi gefið kolaorkuverum tveggja ára frest til að draga úr mengun sem rennur út í þessum mánuði. Ekkert hafi hins vegar gerst.

„Stærsta hindrunin í vegi þess að hreinsa loftið á Indlandi er skortur á pólitískum vilja,“ segir Dahiya.

Styrkur fíns svifryks í Nýju-Delí var rúmlega fjórum sinnum hærri en heilbrigt er talið. Þegar Sri Lanka og Indland öttu kappi í krikket í gær ældu tveir leikmenn á vellinum. Leikmenn Sri Lanka voru með andlitsmaska í leiknum. Liðið hefur kvartað til Alþjóðakrikketráðsins. Leikmenn liðsins seldu einnig upp þegar liðin kepptu um helgina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×