Enski boltinn

Sigurlíkur Chelsea hækkuðu mikið eftir úrslit vikunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Costa og félagar í Chelsea eru í frábærum málum.
Diego Costa og félagar í Chelsea eru í frábærum málum. Vísir/Getty
Þriðjudagskvöldið hafði mikil áhrif á tölfræðispá FiveThirtyEight um hvaða lið verður enskur meistari í vor og það er ekki oft sem lið hækka sigurlíkur sínar svona mikið með því aðeins að gera jafntefli.

Chelsea náði „bara“ jafntefli á móti Liverpool á Anfield en þar sem öll liðin í næstu sætum töpuðu einnig stigum og Chelsea jók forskot sitt um eitt stig þá eru nú 77 prósent líkur á því að Chelsea verði enskur meistari.

Fyrir umferðina í vikunni voru 68 prósent líkur á titil hjá Chelsea og sigurlíkur Antonio Conte og lærisveina hans hækkuðu um níu prósent.

Arsenal tapaði á heimavelli á móti Watford og sigurlíkur liðsins fóru úr tólf prósentum niður í fimm prósent. Liverpool á nú fimm prósent möguleika á meistaratitlinum en líkurnar voru sjö prósent fyrir leikinn á móti Chelsea.

Slakt gengi Liverpool í janúar hefur þýtt það að sigurlíkur Jürgen Klopp og lærisveina hans hafa hrunið um tugi prósenta í mánuðinum.

Tottenham, sem gerði bara markalaust jafntefli við Sunderland í fyrrakvöld, á nú næstmesta möguleika á því að vinna enska meistaratitilinn í vor. Sigurlíkur Spurs eru núna sjö prósent en voru níu prósent fyrir leikina í þessari viku.

Hér fyrir neðan má sjá ESPN fara yfir sigurlíkurnar eftir að hafa fengið upplýsingar frá tölfræðisíðunni FiveThirtyEight.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×