Viðskipti innlent

Átti bílaþvottastöðvar og endaði í 567 milljóna gjaldþroti

Haraldur Guðmundsson skrifar
Á þeim tíma sem F-400 rak bílaþvottastöðvar var ein þeirra staðsett við Bæjarlind í Kópavogi.
Á þeim tíma sem F-400 rak bílaþvottastöðvar var ein þeirra staðsett við Bæjarlind í Kópavogi. Vísir/Valli
Ekkert fékkst upp í almennar kröfur upp á 553 milljónir króna í einkahlutafélagið F-400, áður Bílaþvottastöðin Löður ehf., áður en gjaldþrotaskiptum félagsins lauk 13. janúar síðastliðinn. Kröfur í búið námu alls 567 milljónum króna en 6,6 milljóna samþykktar forgangskröfur fengust greiddar.

Þetta kom fram í Lögbirtingablaðinu í gær og greindi fréttastofa RÚV fyrst frá. F-400 var tekið til gjaldþrotaskipta í mars 2013 en félagið átti og rak bílaþvottastöðvar undir vörumerkinu Löður. Samkvæmt upplýsingum Vísis eru engin tengsl á milli fyrrverandi eiganda F-400 og þeirra sem nú reka bón- og þvottastöðvar Löðurs.

Uppfært klukkan 19:03

Elísabet Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Löðurs ehf, vill vekja athygli á því að gjaldþrotið sem fjallað er um að ofan tengist ekki bílaþvottastöðinni Löður ehf. Síminn hafi ekki stoppað í dag til að spyrja út í skuldastöðu síns fyrirtækis.

„Löður ehf er starfandi bílaþvottastöð í dag með 35 starfsmenn í vinnu og 16 þvottastöðvar í fullum rekstri. Umrætt gjaldþrot bílaþvottastöðvar er algjörlega ótengt rekstri og núverandi eigendum Löðurs,“ segir í yfirlýsingunni frá Elísabetu.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×