Innlent

Lögreglustjórar vilja ekki að pólitíkusar ákvarði launakjörin

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Lögreglustjórafélagið telur það varhugavert að færa ákvörðunarvald varðandi launakjör undir fjármálaráðherra.
Lögreglustjórafélagið telur það varhugavert að færa ákvörðunarvald varðandi launakjör undir fjármálaráðherra.
Stjórn lögreglustjórafélagsins tilkynnti Félagi forsvarsmanna ríkisstofnana (FFR) fyrr í mánuðinum að allir lögreglustjórar hér á landi, tollstjóri, forstjóri Landhelgisgæslunnar og forstjóri Útlendingastofnunar hafi gengið úr FFR.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Vesturlandi og formaður lögreglustjórafélagsins segir að þau embætti sem heyra undir sitt félag séu fyrir margar sakir frábrugðin öðrum embættum sem heyra undir ríkið. Þar að auki sé FFR ekki stéttarfélag og kveða samþykktir þess á um að aðeins þeir sem fái laun ákvörðuð af kjararáði geti orðið félagsmenn. Ennfremur er kveðið á um það í lögum að ráðherra skuli ráðfæra sig við FFR varðandi laun og kjör þeirra forstöðumanna sem ekki heyra undir Kjararáð.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að laun forstöðumanna ríkisstofnana sem ekki heyri undir Kjararáð verði ákvörðuð af fjármálaráðherra. Þessu mótmælir Lögreglustjórafélagið og hefur sent Alþingi umsögn um frumvarpið.

Lögreglustjórafélagið hefur sent Alþingi umsögn þar sem breytingunum er mótmælt.Vísir/Vilhelm
„Í umsögn Lögreglustjórafélags Íslands um frumvarp til laga um kjararáð [...] var á það bent að félagið teldi varhugavert í réttarríki að fela ráðherra eða sérstakri starfseiningu í ráðuneyti að ákveða laun lögreglustjóra og ríkislögreglustjóra. Lögreglustjórafélag íslands taldi þá og telur enn að óháður úrskurðaraðili eigi að ákveða laun og önnur launakjör framangreindra embættismanna,“ segir í umsögn félagsins.

Úlfar segir að Greco, Samtök ríkja gegn spillingu, hafi bent Íslenskum stjórnvöldum á að í réttarríki þurfi að tryggja embættismönnum innan löggæslunnar tiltekið sjálfstæði frá stjórnmálamönnum.

„[Þau] hafa til að mynda lagt það til við íslensk stjórnvöld og ítrekað það í nýrri skýrslu að huga þarf að stöðu lögreglustjóra sem ákæranda og gera athugasemdir við stuttan skipunartíma þeirra,“ segir Úlfar. „Krafa lögreglustjóra er að laun og launakjör verði ákvörðuð í framtíðinni af óháðum aðila hvort sem það er kjararáð eða einhver annar aðili,“ og segir það undarlegt að á sama tíma og viðvaranir Greco komi út kjósi stjórnmálamenn að færa ákvarðanavaldið varðandi launakjörin undir pólitíkusa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×