Níu af hverjum tíu borgarbúum sögðust vera í meðallagi, frekar eða mjög jákvæðir gagnvart ferðamönnum. Ánægja íbúanna hefur þó minnkað lítillega frá því viðhorfskönnun var gerð á sama tíma árið 2015. Samkvæmt gögnum frá Ferðamálastofu hefur aukning ferðamanna á milli ára verið um 88 prósent fyrstu sex mánuði ársins.
Einungis 13 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins verða fremur eða mjög mikið vör við rekstur heimagistingar í nágrenni við heimili sín en í miðborginni er staðan önnur. Þar verður um helmingur íbúa mikið var við slíkt. Mikil aukning hefur verið á útleigu AirBnB íbúða á höfuðborgarsvæðinu á milli ára, en þó ekki jafn mikil og búist var við.
Samkvæmt upplýsingum frá dr. Jeroen A. Oskam nýttu 380 þúsund manns sér AirBnB gistingu í Reykjavík á síðasta ári og eru íbúðirnar sem í boði eru yfir 5.000 talsins. Um 75 prósent íbúðanna eru í miðborginni, Vesturbæ og Hlíðum.

„Við töldum að það væru um 35 prósent ferðamanna að nýta sér AirBnB gistingu í borginni og þá vorum við að horfa bæði á fjölda íbúða og herbergja sem við vitum að eru á AirBnB. Aukning ferðamanna frá 2015 hefur verið rétt um 40 prósent og það er mjög erfitt að fylgja svona miklum vexti í uppbyggingu hótel og gistirýmis.“
Áshildur segir að jafnvel þó uppbygging hótela og gistirýma í borginni aukist þá náum við ekki að halda í við þessa aukningu í fjölda ferðamanna.
„Gerð var skýrsla fyrir borgina þar sem verið var að skoða hversu hröð uppbyggingin þyrfti að vera til að geta fylgt eftir vextinum á fjölda ferðamanna og þar var talað um að tvöfalda til þrefalda þurfi fjölda hótelherbergja á næstu fimm árum til að geta tekið á móti öllum.“
Á fyrsta fjórðungi ársins varð 90 prósenta aukning á leigu á AirBnB íbúðum miðað við fyrsta fjórðung ársins 2016. Áshildur segir að ákveðin samfélagsleg þróun sé að eiga sér stað, að fleiri ferðamenn kjósa að gista inni á heimilum en ekki á hóteli.
„Fólk sem ferðast vill hegða sér eins og íbúarnir, vilja upplifa borgina eins og þeir eigi heima þar. Við sjáum að aðilar í hótelrekstri eru svolítið að bregaðst við með því að gera hótelherbergin persónulegri. Hótel eru í auknum mæli að færa sig í þessa átt.“
Ný lög um heimagistingu tóku gildi síðustu áramót og þar er kveðið á um að heimilt sé að leigja út heimili sitt í 90 daga á ári. Áshildur segir borgina hafi óskað eftir samstarfi við AirBnB til þess að auka eftirlit og hagræði.
„Það lýsir sér þannig að ef þú ert með eign skráða á AirBnB og ert búin að leigja í 90 daga, sem er hámarkið, þá fer eignin út af skrá þar til á næsta ári.“