Stjórnarmyndunarviðræður Kristilegra demókrata (CDU,CSU), Frjálslynda flokksins (FDP) og Græningja halda áfram í Þýskalandi í dag. Viðræðurnar hafa gengið hægt og hafa Græningjar varað við að viðræðurnar kunni að sigla í strand. Komi til þess er möguleiki á að boða verði til nýrra kosninga.
Fulltrúar flokkanna komu saman í hádeginu til að reyna að leysa úr deilumálum þannig að hægt verði að koma stjórnarmyndunarviðræðunum í formlegan búning.
Háttsettir menn innan flokkanna funduðu í gær og mátti skynja bjartsýni meðal fulltrúa Kristilegra demókrata og Frjálslyndra. Þó mátti skynja óánægju meðal Græningja sem telja að ekki sé nægt tillit tekið til stefnumála flokksins í viðræðunum.
Samkvæmt áður settri tímaáætlun á að vera búið að ljúka óformlegum viðræðum flokkanna á fimmtudag og eiga flokkarnir þá taka afstöðu til hvort ganga skuli til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna.
Anton Hofreiter, þingflokksformaður Græningja, segir Angelu Merkel misskilja hlutina ef hún telji sig geta þrýst á Græningja til fylgilags með því að beita þá tímapressu.
Verður viðræðum slitið þarf líklegast að boða verði til nýrra kosninga í landinu þar sem Jafnaðarmenn hafa þegar útilokað samstarf með Kristilegum demókrötum. Flokkarnir mynduðu saman stjórn á síðasta kjörtímabili.
Kosningarnar fóru fram þann 24. september síðastliðinn.
Græningjar hikandi í þýskum stjórnarmyndunarviðræðum
Atli Ísleifsson skrifar
