Fótbolti

Verðmiðinn hefur engin áhrif á Gylfa: Yrði brjálaður að lesa alltaf blöðin

Tómas Þór Þórðarson í Antalya skrifar
45 milljóna punda verðmiðinn á Gylfa Þór Sigurðssyni truflar hann ekkert þrátt fyrir erfiða byrjun Everton á tímabilinu. Gylfi verður í eldlínunni með strákunum okkar í Tyrklandi á föstudaginn.

Íslenska landsliðið æfði í síðasta sinn í summarleyfisdvalaborginni Antalya í morgun en liðið flaug til Eskisehir klukkan fimm að íslenskum tíma í dag en þar fer leikurinn gegn Tyrklandi fram á föstudagskvöldið. Gylfi Þór Sigurðsson og strákarnir okkar mega búast við algjörri sturlun á leikdegi en þeir hafa upplifað tyrkneska brjálæðið áður því hér voru þeir fyrir tveimur árum síðan.

„Þessar mínútur gætu reynst okkur mjög dýrmætar. Það var góð reynsla sem við fengum þá. Í heildina eru flestir okkar leikmenn vanir því að spila undir mikilli pressu og spila mikilvæga leiki. Svona leikir eru ástæðan fyrir því að maður er í fótbolta. Það er bara skemmtilegra að spila fyrir framan brjálaða áhorfendur í mikilli stemningu,“ segir Gylfi.

Gylfi Þór er sjálfur í góðu formi enda búinn að spila mikið fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni og í Evrópudeildinni. Lífið í Bítlaborginni hefur þó ekki farið af stað eins og hann hefði óskað sér. Liðið vinnur varla leik þessa dagana.

„Þetta er búið að vera öðruvísi en maður bjóst við. Það er mikið af nýjum leikmönnum og hópurinn sterkur og góður. Hlutirnir hafa ekki alveg verið að falla með okkur. Ég held að það sé ekkert mikið sem við þurfum að bæta en það eru einhverjir hlutir sem þurfa að breytast bæði í sóknarleiknum og varnarleiknum. Ég hef séð hlutina svartari en þetta. Við náum alveg að snúa þessu við,“ segir hann.

Gylfi var keyptur fyrir 45 milljónir punda og er auðvitað til mikils ætlast af honum. Þegar illa gengur eru margir fljótir að snúast gegn þeim sem áður hétu snillingar en hvorki verðmiðinn né umræðan truflar íslenska landsliðsmanninn.

„Ég les rosalega lítið fréttirnar. Ég kemst hvað helst nálægt þeim þegar ég fer í viðtöl. Ég er lítið að spá í þessu. Ég hugsa algjörlega bara um að spila fótbolta og reyna að standa mig þar. Ég held að maður yrði bara brjálaður ef maður væri alltaf að lesa blöðin eða netsíðurnar. Ég reyni að sleppa því bara,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×