Skoðun

Eina kerfið sem veit best

Pawel Bartoszek skrifar
Ég hef lesið margar greinar á ákveðnum hægrisíðum þar sem kerfinu er bölvað. Í greinunum kemur fyrir vondur embættismaður sem, umboðslaus, stöðvar allar framfarir og gerir venjulegu fólki lífið leitt. Embættismaður á Samgöngustofu neitar bátum um leyfi til að flytja fólk á þjóðhátíð. Skriffinnar hjá Umhverfisstofnun tefja einhverjar atvinnuskapandi framkvæmdir. Jafnréttisstofa ofsækir heiðvirð fyrirtæki og Samkeppnisstofnun leggst gegn sjálfsagðri hagræðingu í rekstri. Kerfið að henda skrúfjárni í gangverk framfara. Vonda kerfið!

„Faglegar ráðningar“ eru helst ekki nefndar nema innan gæsalappa. Þegar kerfið leggur til dómara að loknu ákveðnu ferli þá má ekki eftirláta kerfinu einu það vald. Nei, stjórnmálamaðurinn hefur umboðið. Hann hefur ábyrgðina og þar með valdið. Það er eðlilegt að hann ráði þessu. Því að við vitum að „fagmenn“ eru innst inni bara fólk. Það þýðir ekki að treysta í blindni á kerfið.

En í einum málaflokki er kerfið frábært. Það eru útlendingamálin. Þar verður kerfið að fá að stjórna. Ef menn draga niðurstöður kerfisins í efa þá eru menn að ráðast á fagfólkið. Ef menn vilja breyta þeim reglum sem kerfið starfar eftir þá eru menn að ráðast á kerfið. Ef menn fylgja ekki ráðleggingum embættismanna þá eru menn í afneitun. Ef menn bregðast við fréttaflutningi og vilja kafa ofan í einstök mál þá eru menn að grafa undan kerfinu.

Tilraunir til að setja sig á móti niðurstöðum kerfisins, útlendingakerfisins, eru uppnefndar sem geðþóttaákvarðanir. Geðþóttaákvarðanir sem drifnar eru áfram á tilfinningum og barnslegri linkind. Tilraunum til að hnekkja á niðurstöðum annarra kerfa er aldrei andmælt með þessum hætti.

Að lokum, eitt dæmi um þessa kerfisdýrkun: Í dag fá flestir ríkisborgararétt gegnum Útlendingastofnum. Enn er þó er glufa sem heimilar Alþingi að veita íslenskan ríkisborgararétt þeim sem uppfylla ekki skilyrði laganna. Þetta er heimild sem er nýtt í undantekningartilfellum. Þessari glufu vill sumt fólk loka. Því í þessum málaflokki þá verða lögin bara að gilda, punktur. Í þessum málaflokki vita fagmennirnir best. Í þessum málaflokki verður allt vald að vera hjá kerfinu.

 

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Sjá meira


×