Yfirvöld Norður-Kóreu biðluðu í dag til ríkja heimsins að sýna þeim vægð og fylgja ekki viðskiptaþvingunum Sameinuðu þjóðanna gegn ríkinu. Fyrstu þvingununum var beitt gegn Norður-Kóreu árið 2006 og hafa þær margsinnis verið hertar síðan vegna eldflauga- og kjarnorkuvopnatilrauna einræðisríkisins.
Bréfið sem birt var í dag, en dagsett í gær, er til 192 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og tveggja ríkja til viðbótar, samkvæmt frétt Reuters fréttaveitunnar.
Þar fer Norður-Kórea fram á að framfylgd þvingana verði endurskoðuð á meðan lögmæti þeirra verði rannsakað. Norður-Kórea hefur lengi farið fram á að alþjóðlegt ráð sérfræðinga segi til um hvort að þvinganirnar séu löglegar samkvæmt alþjóðalögum.
Í fréttatilkynningu sem fylgdi bréfinu saka Norður-Kóreumenn Bandaríkin um að hóta öðrum ríkjum, fylgi þau ekki þeim þvingunum sem beitt hefur verið gegn einræðisríkinu.
Þar að auki sendi Norður-Kórea, samkvæmt ríkismiðlinum KCNA, einnig bréf til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings þar sem varað var við því að hertar þvinganir myndu einungis hraða kjarnorkuvopnatilraunum ríkisins.
Bandaríkin eiga nú í viðræðum við Kína, eina bandamann Norður-Kóreu, um hertari viðskiptaþvinganir.
