Innlent

Ævintýraleg fjölgun ferðamanna í apríl

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ferðamannafjöldinn sem heimsótti Ísland þennan veturinn fór yfir eina milljón og jókst um 60 prósent milli ára. Nýliðinn vetur skilaði fleiri erlendum ferðamönnum til landsins en allt árið 2014. Í frétt Stöðvar 2 hér að ofan má sjá ævintýralegar tölur um fjölgun ferðamanna. 

Tölur sem fengust frá Ferðamálastofu í dag benda ekki til þess að hátt verðlag sé farið að fæla ferðamenn frá því að heimsækja Ísland. Þvert á móti er fjölgun milli aprílmánaðar í fyrra og aprílmánaðar í ár hreint ótrúleg, eða 62 prósent.

Yfir 150 þúsund erlendir ferðamenn heimsóttu Ísland í síðasta mánuði, miðað við 95 þúsund í sama mánuði í fyrra. Flestir komu frá Bandaríkjunum, eða 40 þúsund, Bretar voru næstfjölmennastir, um 28 þúsund, en Norðurlandabúar samantaldir voru þriðji stærsti hópurinn, um 17 þúsund. Athygli vekur veruleg fjölgun ferðamanna frá Norður-Ameríku, bæði Bandaríkjamanna, um 100%, og Kanadamanna, um 137%.

Tölurnar ofan á súlunum sýna fjölda ferðamanna í þúsundum í hverjum mánuði. Tölurnar inni í súlunum sýna hlutfallslega fjölgun frá sama mánuði í fyrra.
Tölurnar fyrir nýliðinn vetur sýna að núna gerðist það í fyrsta sinn í sögunni að hver einasti vetrarmánuður skilaði yfir eitthundrað þúsund erlendum ferðamönnum. Fæstir komu í desember, 125 þúsund, en flestir í mars, 168 þúsund, og 154 þúsund komu í apríl. Samtals voru þetta yfir milljón ferðamenn þessa sjö vetrarmánuði. 

Tölurnar yfir hlutfallslega fjölgun sýna að hún var mest 76 prósent í desember, og 75 prósent í janúar, en minnst 45 prósent í mars. 

Í venjulegum rekstri hefðu sennilega flestir talið sig fullsæla með 5-10% aukningu milli ára. Íslenska ferðaþjónustan hefur hins vegar í vetur, frá októberbyrjun til aprílloka, notið 60% fjölgunar ferðamanna. Tölurnar sýna, svo ekki verður um villst, að það er ekkert lát á íslenska ferðamannaævintýrinu. 

Heildarfjöldi ferðamanna um Leifsstöð á hverju ári í þúsundum talið frá 2005 til 2016.
Þetta súlurit lýsir þróuninni undanfarin tólf ár. Frá árinu 2005 fjölgaði ferðamönnum hægt úr 360 þúsund á ári upp í 460 þúsund 2010, árið sem Eyjafjallajökull gaus, en síðan hefur ferðamannastraumurinn rokið upp, fór fyrst yfir millljón 2015 og í fyrra í 1.768 þúsund.

Hlutfallsleg fjölgun ferðamanna um Leifsstöð milli ára frá 2005.
Tölur um hlutfallslega breytingu milli ára undanfarin tólf ár sýna að ferðamönnum fækkaði lítillega á árunum eftir hrun, 2009 og 2010, en þá hófst ævintýrið, sem toppað var með 40 prósenta fjölgun í fyrra.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×