Innlent

Tónlistarhátið The xx: Heimamenn vilja tryggja aðgengi að Skógafossi

Samúel Karl Ólason skrifar
"Við viljum ekki hefta aðgengi að fossinum. Þessari náttúruperlu. Hún hefur staðið öllum opin. Því sáum við þetta ekki alveg samrýmast.“
"Við viljum ekki hefta aðgengi að fossinum. Þessari náttúruperlu. Hún hefur staðið öllum opin. Því sáum við þetta ekki alveg samrýmast.“ Vísir/Vilhelm
Umsókn bresku indie-hljómsveitarinnar The xx um afnot af tjaldsvæði við Skógafoss vegna tónlistarhátíðarinnar Night + Day sem halda á um miðjan júlí hefur verið hafnað. Umsóknin sneri að aðstöðu fyrir tónleikana á landi í eigu Héraðsnefnda Vestur Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu, sem eiga landið við fossinn.

Egill Sigurðsson, formaður héraðsnefndar Rangárvallasýslu, segir að á fundi nefndarinnar á mánudaginn hafi umsókninni verið hafnað í þáverandi mynd.

Síðan þá hafa hins vegar borist ný gögn frá aðstandendum hátíðarinnar sem taka eigi til skoðunar. Málið er því enn í ferli.

„Alla daga yfir sumartímann er fjöldi fólks á ferðinni til og frá Skógafossi,“ segir Egill. „Við viljum ekki hefta aðgengi að fossinum. Þessari náttúruperlu. Hún hefur staðið öllum opin. Því sáum við þetta ekki alveg samrýmast.“

Friðrik Ólafsson, tónleikahaldari, sagði í samtali við Vísi í dag að hátíðin yrði haldin á einkalóð nærri fossinum. Þá sagði hann að hluti af ágóða hátíðarinnar færi í sjóð til að betrumbæta svæðið og byggja upp aðstöðuna við Skógafoss á næstu árum.

Á vefsíðunni thexxnightandday.com segir að The xx sjái um listræna stjórnun hátíðarinnar sem er ætlað að hylla uppáhalds staði hljómsveitarinnar um allan heim. Þar koma saman erlendir sem og íslenskir listamenn.

Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni eru The xx, Högni, Earl Sweatshirt, Mr Silla og sænska söngkonan Robyn.


Tengdar fréttir

The xx á Íslandi í júlí

Svo virðist sem enska hljómsveitin The xx spili á Íslandi í júlí. Í gær hlóð hljómsveitin upp myndbandi á Facebook-síðu sína sem gaf það til kynna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×