Innlent

Spánverjinn ákærður fyrir kynferðisbrotin þrjú og verður áfram í haldi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi í ellefu vikur.
Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi í ellefu vikur. VÍSIR/GVA
Spænskur karlmaður sem grunaður er um að hafa brotið kynferðislega gegn þremur konum á hóteli á Suðurlandi í febrúar síðastliðnum var í Hæstarétti í dag úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Hann hefur nú sætt gæsluvarðhaldi í samtals ellefu vikur.

Maðurinn er grunaður um að hafa nauðgað tveimur konum og káfað á þeirri þriðju eftir árshátíð á hótelinu. Lögregla hefur gefið út ákæru á hendur manninum en lögum samkvæmt mega sakborningar ekki sæta gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur.

Samkvæmt úrskurðinum er enn beðið niðurstaðna úr greiningu á DNA-sýnum sem tekin voru á upphafsstigum rannsóknarinnar, en þar sem niðurstaðnanna sé að vænta innan skamms hafi verið tekin ákvörðun um að höfða mál á hendur manninum.

Maðurinn neitar sök en ákæruvaldið telur sig þó hafa sterkan grun um öll brotin þrjú. Meðal annars er byggt á því að maðurinn var handtekinn á vettvangi síðasta brotsins, framburðum kvennanna og annarra vitna. Auk þess hafi maðurinn kannast við að hafa farið inn í þrjú herbergi á hótelinu þetta kvöld og lýst því að hann hafi haft samræði við tvær konur. Hann segir það hins vegar hafa verið með samþykki þeirra.

Hvað varðar þriðja brotið þá sagðist maðurinn hafa verið að leita að tóbaki sínu í rúmi konunnar og þess vegna hafi hann farið með hendurnar undir sæng hennar.

Ákæruvaldið telur framburð mannsins ótrúverðugan og að almannahagsmunir krefjist þess að hann verði ekki frjáls ferða sinna á meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómstólum. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að sextán ára fangelsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×