Nú í mars hafa borgarbúar getað sent inn hugmyndir að nýframkvæmdum eða viðhaldi í borginni á síðuna Hverfið mitt en borist hafa tæplega þúsund hugmyndir sem kosið verður á milli í haust.
Flestar hugmyndir snúa að viðhaldi, skipulagi eða uppbyggingu í borginni en sumar eru ansi frumlegar.Til að mynda hugmyndin um hjólabáta á tjörninni við Hjómskálann. Flutningsmaður tillögunnar mælir með rómantískri útgáfu á kvöldin - eða gondóla-stemningu.
Annar hugmyndasmiður vill fá styttu af Jóni Páli Sigmarssyni í miðborgina, í fullri stærð að hnykla vöðvana. Einkennisorð kraftajötunsins „ekkert mál fyrir Jón Pál,“ eiga að standa á styttunni.
Og svo er það hugmyndin um risavaxinn sprellikarl á grænu svæði í Breiðholti. Þannig gætu sprellarar kíkt við, togað í spottann og séð kallinn veifa höndum og fótum öllum til mikillar ánægju. Þess má geta að þeir sem luma á góðri hugmynd hafa fram að miðnætti í kvöld að senda hana inn.
Sonja Wiium, verkefnastjóri Hverfið mitt segir að nú muni taka við tveggja vikna ferli þar sem íbúar geta farið inn á vefinn og gefið hugmyndum vægi og deilt þeim.
„Þannig getur fólk líka komið hugmyndum sínum áfram. Því vinsældir skipta máli þegar hugmyndirnar fara í kosninguna - hvort þær nái yfirhöfuð að komast alla leið þangað," segir hún.
Fyrir utan vinsældir þurfa hugmyndir einnig að vera innan fjárhagsramma.
„Þær þurfa einnig að samræmast skipulaginu, við getum ekki sett eitthvað einhvers staðar. Einnig þurfa þær að vera á borgarlandi og ekki mega ekki krefjast of flókins samráðs við lögreglu," segir Sonja en segir þó gaman að fá góðar hugmyndir og flestar nái þær í gegn.

