Fjórar stelpur og tveir strákar eru í landsliðinu á þessu sinni en þau stóðu sig öll vel á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum sem fram fór í Laugardalshöllinni um helgina.
Valgarð Reinhardsson úr Gerplu og Irina Sazonova úr Ármanni urðu Íslandsmeistarar í fjölþraut. Irina vann einnig Íslandsmeistaratitilinn í stökki og á jafnvægisslá en Valgarð varð Íslandsmeistari á svifrá.
Jón Sigurður Gunnarsson úr Ármanni er einnig í liðinu en hann varð Íslandsmeistari í æfingum í hringum og í þriðja sæti í fjölþraut. Eyþór Örn Baldursson, sem varð annar í fjölþrautinni og varð Íslandsmeistari í stökki og á gólfi, er ekki í landsliðinu að þessu sinni.
Dominiqua Alma Belányi úr Ármanni, sem varð önnur í fjölþraut kvenna, er einnig í liðinu en hún varð Íslandsmeistari á tvíslá og í gólfæfingum. Hinar tvær í liðinu eru þær Agnes Suto úr Gerplu og Tinna Óðinsdóttir úr Björk. Agnes varð þriðja í fjölþraut en Tinna fjórða.
Þrjú félög eiga fulltrúa í landsliðinu að þessu sinni en Ármann á flesta eða þrjá keppendur. Gerpla á tvo og Bjarkirnar einn.
Landsliðið fyrir Evrópumótið í áhaldafimleikum:
Agnes Suto - Gerplu
Dominiqua Alma Belányi - Ármanni
Irina Sazonova - Ármanni
Tinna Óðinsdóttir - Björk
Jón Sigurður Gunnarsson - Ármanni
Valgarð Reinhardsson - Gerplu
Þjálfarar: Guðmundur Þór Brynjólfsson, Vladimir Antonov og Róbert Kristmannsson
Dómarar: Sandra Dögg Árnadóttir, Sæunn Viggósdóttir og Daði Snær Pálsson
Fararstjóri: Sólveig Jónsdóttir