Innlent

Skulda yfir þrjá milljarða í sektir

Benedikt Bóas skrifar
Skortur er á virkum innheimtuúrræðum í samanburði við svipuð úrræði á öðrum
Norðurlöndum. Fæstir af þeim 2.859 sem bíða vararefsinga enda á Litla-Hrauni því flestir taka refsinguna út í samfélagsþjónustu.
Skortur er á virkum innheimtuúrræðum í samanburði við svipuð úrræði á öðrum Norðurlöndum. Fæstir af þeim 2.859 sem bíða vararefsinga enda á Litla-Hrauni því flestir taka refsinguna út í samfélagsþjónustu. vísir/anton
Sektir og sakarkostnaður sem komið er í svokallað vararefsingarferli nemur 3,2 milljörðum króna. Fjöldi einstaklinga sem bíður að komast í afplánun vegna þeirra telja 2.859. Þá á eftir að birta 1.946 einstaklingum ákvörun um vararefsingarferli.

Illa gengur að innheimta sektirnar hér á landi því sé sektin yfir átta milljónir er innheimtuhlutfallið aðeins 5%. Hlutfallið er 25-35% fyrir smærri sektir. Þetta kemur fram í fjármálaáætlun ríkisins til ársins 2022.

Vinnuhópur er starfandi til að skoða virkari innheimtuúrræði og mun hann koma með tillögur að breytingum. Ekki kemur fram hvenær hann á að skila tillögunum.

Frumvarp Ólöfar Nordal frá síðasta ári gekk mun lengra í að reyna að innheimta sektir en áður enda hafði komið fram að í Noregi er innheimtuhlutfallið 90-95%.

Nú mega sýslumenn, sem, annast fullnustu sekta,  innheimta ógreidda sekt og sakarkostnað, með aðför. Auk þess mega þeir fá aðgang að fasteigna-, skipa- og ökutækjaskrá til eignakönnunar sem og að kanna hugsanlegar eignir sem skuldarar varðveita í bönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum. Er fjármálafyrirtækjum skylt að upplýsa sýslumenn án endurgjalds um eignastöðu skuldara.

Í skýrslu ríkisendurskoðun um eftirlit með innheimtu sekta og sakarkostnaðar kemur fram að fangelsi hafi lítið verið nýtt til afplánunar vararefsinga og boðunarlisti vegna þeirra lengist. Skortur á fangarýmum veldur því að nánast útilokað sé að boða þessa aðila til afplánunar. Flestir afplána vararefsingar fésekta í samfélagsþjónustu. Þá fjölgi þeim sem eru svo lengi á boðunarlista vararefsinga að þær fyrnast áður en til afplánunar segir í skýrslunni.

Í fjármálaáætluninni er bent á að fjöldi refsinga sem fyrnast hafi aukist talsvert undanfarin ár þrátt fyrir uppbyggingu. Fjöldi þeirra sem bíður afplánunar óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga er 550 einstaklingar og hefur árafjöldi refsinga einnig hækkað undanfarin ár. Í fjármálaáætluninni, þar sem alltaf eru skýr markmið til ársins 2022, er bent á að unnið sé að viðmiðum varðandi innheimtuárangurinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×