Innlent

Vilja auka öryggi á strandveiðum

Svavar Hávarðsson skrifar
Að meðaltali eru strandveiðar stundaðar á 683 bátum árlega.
Að meðaltali eru strandveiðar stundaðar á 683 bátum árlega. vísir/stefán
Lögð er til grundvallarbreyting á strandveiðikerfinu í lagafrumvarpi sex þingmanna Vinstri grænna. Þar er lögð til breyting sem felur í sér að auka öryggi sjómanna á strandveiðibátum með því að binda veiðarnar við tólf veiðidaga innan hvers mánaðar og svæðis.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður málsins, en þar segir í greinargerð að sá „ágalli hefur verið á gildandi fyrirkomulagi að veiðarnar hafa verið það sem kallað er „ólympískar“ sem birtist í því að sjómenn hafa keppst um að ná þeim afla sem heimilað er á sem skemmstum tíma og áður en aflaheimildin yrði upp urin. Þetta hefur leitt til þess að stundum hafa menn róið á minni bátum þótt ekki viðraði til þess og fylgir því að sjálfsögðu aukin slysahætta. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til ætti að vera dregið mjög úr hvata til „ólympískrar“ sóknar og þar með slysahættu.“

Í stað þessa fyrirkomulags verði heimilt að stunda veiðar í tólf daga í hverjum mánuði.

Strandveiðar hafa verið stundaðar frá því í júní 2009. Frá árinu 2010 hafa að meðaltali 682 bátar stundað strandveiðar ár hvert. Frá árinu 2011 hafa strandveiðar skilað rúmum frá 7.000 tonnum til 8.555 tonna árið 2016. Segir í frumvarpinu að frá árinu 2011 hafi þorskafli í strandveiðum því ekki fylgt aukningu heildarafla. Alls 7.968 tonn á tímabilinu vantar þar upp á því árið 2011 var heildarþorskafli 169.600 tonn en rúm 250.000 tonn í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×