Innlent

Verslanir fleygja tonnum á ári hverju

Sæunn Gísladóttir skrifar
Matarleifar í gámi. Hver íbúi hér á landi fleygir að meðaltali 23 kg af nýtanlegum mat á ári og 39 kg af ónýtanlegum mat. Hver íbúi hellir niður 22 kg af matarolíu og fitu og 199 kg af drykkjum.
Matarleifar í gámi. Hver íbúi hér á landi fleygir að meðaltali 23 kg af nýtanlegum mat á ári og 39 kg af ónýtanlegum mat. Hver íbúi hellir niður 22 kg af matarolíu og fitu og 199 kg af drykkjum. mynd/estelle divorne
Matvöruverslanir landsins hafa í auknum mæli reynt að fyrirbyggja matarsóun. Þó er enn langt í land, en matvöruverslanirnar fleygja hundruðum kílóa á viku. Þetta kemur fram í grein í Neytendablaðinu.

Samkvæmt svörum frá Krónunni nemur lífrænn úrgangur hjá keðjunni 1,5 tonnum á viku, eða 83 tonnum á ári, en fer ört minnkandi vegna átaksins „Minnkum matarsóun“ sem Krónan réðst í. Gengið er úr skugga um að ætum mat sé ekki hent. Vöruskil hjá Krónunni til ferskvörubirgja munu vera undir einu prósenti af vörukaupum og af því er meira en helmingur kjúklingur.

Hjá Samkaupum hefur átak gegn sóun skilað góðum árangri. Lífrænn úrgangur er um 70 tonn á ári og fer hann til moltugerðar. Matvæli sem eru að renna út á tíma eru seld með afslætti.

Í verslunum 10-11 eru um 260 kíló af lífrænum úrgangi send til moltugerðar í hverri viku. En vörur sem eru að renna út á tíma eru lækkaðar í verði en einnig gefnar til góðgerðarmála ef því verður við komið.

Hagkaup býður afslátt á vörum sem eru að falla á tíma og í bígerð er að gera þessi afsláttarkjör sýnilegri með áberandi merkingum. Lífrænn úrgangur sem fer í moltugerð er um 140 tonn á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×