Lífið

Breyta brauði í „geggjaðan“ bjór

Guðný Hrönn skrifar
Rakel og Ólafur bíða spennt eftir að kynna nýja bjórinn til leiks.
Rakel og Ólafur bíða spennt eftir að kynna nýja bjórinn til leiks. vísir/eyþór
„Ég er ásamt Ægisgarði og samtökunum mínum Vakandi í samstarfi við Mylluna að brugga bjór úr afgangsbrauði með það að markmiði að minnka matarsóun,“ segir Rakel Garðarsdóttir spurð út í nýja bjórinn Toast.

Rakel fékk hugmyndina að bjórnum frá vini sínum sem býr í Bretlandi, Tristram Stuart, en hann setti sams konar bjór á markað í Bretlandi ásamt Jamie Oliver. „Ég hitti Tristram um daginn og við fórum að ræða þetta. Þá langaði mig svakalega að gera þetta hérna heima, það má nefnilega ekki flytja þann bjór á milli landa,“ útskýrir Rakel. „Þetta varðar líka annað sem við Íslendingar þurfum að fara að pæla í, allan þennan innflutning. En það er önnur saga.“

Mikið magn brauðs fer í rusliðEftir samtalið við vin sinn hrinti Rakel hugmyndinni í framkvæmd og setti sig í samband við brugghúsið Ægisgarð. „Hugmyndin á bak við þennan bjór er í grunninn brauð. Brauð er meðal þess matar sem fer mest til spillis í heiminum, brauð, mjólkurvörur og salat.“

Brauðið sem notað er í umræddan bjór kemur frá Myllunni. „Við erum í samstarfi við Mylluna, sem mér finnst frábært. Ég hef nefnilega tekið eftir því í störfum mínum með Vakandi að það eru rosalega margir sem vilja loka augunum fyrir vandamálinu. En þannig leysum við engan vanda. En Myllan var til í að takast á við vandann, það sóast nefnilega hjá þeim heimilisbrauð. Og í staðinn fyrir að leyna því þá taka þau þátt í þessu með okkur. Og úr samstarfinu varð þessi frábæri bjór til. Við höfum verið að prufa hann svolítið áfram og hann er alveg geggjaður. Og svo er það Ólafur S.K. Þorvaldz sem bruggar.“

Spurð út í hvort hún sé mikil bjórkona svarar Rakel játandi. „Já, en kannski ekki mjög mikil,“ segir hún og hlær.

„En jú, mér finnst bjór alveg mjög góður. Ég er enginn bjórsérfræðingur samt, langt í frá. En ég veit hvað mér finnst gott.“

Beðin um að lýsa Toast segir Rakel: „Þetta er english pale ale, 5,6 prósent. Hann er ljósbrúnn og það er ofboðslega auðvelt að drekka hann.“

Rakel bendir áhugasömum að lokum á að bjórinn verður kynntur til leiks klukkan 20.00 í kvöld í Ægisgarði. „Ég hvet alla til að koma og sjá að þetta virkar. Og kannski þetta kveiki einhverjar hugmyndir hjá fólki um hvernig megi nýta hráefni sem annars fer til spillis. Og vonandi verður þetta bjór sem bætir heiminn,“ segir hún glöð í bragði. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.