Innlent

Eftirlýstir um land allt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglumenn um allt land eru meðvitaðir um leitina að mönnunum. Myndin tengist fréttinni ekki bent.
Lögreglumenn um allt land eru meðvitaðir um leitina að mönnunum. Myndin tengist fréttinni ekki bent. Vísir/Ernir
Leit lögreglunnar að tveimur mönnum sem grunaðir eru um sölu á fíkniefninu MDMA hefur ekki borið árangur. Tvær unglingsstúlkur fundust meðvitundarlausar á tröppum húss í miðbæ Reykjavíkur síðastliðið fimmtudagskvöld.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, fer fyrir rannsókn málsins. Hann segir mennina tvo eftirlýsta hjá lögreglu um allt land en enn hafi ekkert spurst til þeirra. 

„Við fórum á nokkra staði í gær en leitin hefur ekki enn borið árangur,“ segir Guðmundur í samtali við Vísi. Allir lögreglumenn á landinu séu meðvitaðir um leitina að mönnunum. Annar mun vera á átjánda ári en hinn nokkuð eldri. 

Guðmundur Páll segir ekki á dagskrá að lýsa eftir mönnunum í fjölmiðlum. Þá segir hann ekkert benda til þess að mennirnir séu farnir úr landi. Aðspurður hvort einhver viðurlög séu við því að láta lögreglu ekki finna sig segir hann að svo sé ekki.

Tvær fimmtán ára stúlkur voru fluttar á Landspítalann á áttunda tímanum á fimmtudagskvöld eftir Neyðarlínusímtal þess efnis að þær væru meðvitundarlausar á tröppum húss við Grettisgötu nærri Snorrabraut. Báðar voru þær lagðar inn á gjörgæslu, hætt komnar. Stúlkurnar komust báðar aftur til meðvitundar og eru nú að jafna sig.



 


Tengdar fréttir

MDMA-sölumaðurinn í felum

Lögregla hvetur manninn til að gefa sig fram og útilokar ekki að annar maður hafi líka komið að sölu efnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×