Uhuru Kenyatta sór í gær embættiseið forseta Keníu á Kasarani-leikvanginum í höfuðborginni Naíróbí. Leikvangurinn var troðfullur og fylgdust um sextíu þúsund með athöfninni.
En þótt athöfnin hafi gengið ágætlega var glundroði fyrir utan leikvanginn. Mun færri komust að en vildu og varð talsverður troðningur þegar hleypt var inn á Kasarani-leikvanginn. Til stóð að sýna athöfnina á risaskjáum fyrir utan völlinn en af því varð ekki. Þess í stað beitti lögregla táragasi gegn fjöldanum.
„Ég vildi bara sjá Uhuru Kenyatta forseta af því ég kaus hann. Af hverju er verið að berja okkur?“ sagði Janet Wambua, ein viðstaddra, við blaðamann AFP.
Skammt frá stóð lögregla í ströngu við að reyna að koma í veg fyrir fjöldafund stuðningsmanna stjórnarandstöðuleiðtogans Raila Odinga.
„Þetta er krýningarathöfn mun frekar en innsetningarathöfn. Við lítum ekki svo á að hann sé réttkjörinn leiðtogi Keníu,“ sagði Odinga í viðtali við BBC í gær.

