Dómari í New York sendi Martin Shkreli, sem nefndur hefur verið hataðasti maður internetsins, í fangelsi. Shkreli hafði verið lausn gegn tryggingu en áreiti hans í garð kvenna á netinu og furðulegt tilboð sem varðaði Hillary Clinton varð til þess að tryggingin var afturkölluð.
Shkreli var sakfelldur fyrir fjársvik í síðasta mánuði. Hann varð frægur að endemum þegar hann keypti framleiðslurétt á alnæmislyfi og hækkaði verðið umsvifalaust um rúm 5.000% árið 2015.
Hann bíður nú ákvörðun refsingar vegna fjársvikamálsins en hefur gengið laus þar sem hann greidd fimm milljón dollara tryggingu. Saksóknarar í málinu kröfðust þess hins vegar að tryggingin yrði afturkölluð vegna þess að framferði Shkreli ógnaði samfélaginu, að sögn Washington Post.
Shkreli hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum eftir að hann var sakfelldur. Lofaði hann meðal annars hverjum þeim sem færði honum lokk úr hári Hillary Clinton með hársekk 5.000 dollara verðlaunum á Twitter. Sagðist hann vilja gera DNA-samanburð á því og lífsýni sem hann sagðist hafa úr henni.
Dómarinn sá ekki húmorinn í tístinu
Í skriflegri afsökunarbeiðni sagði Shkreli ekki hafa gert ráð fyrir að nokkur tæki ummæli hans á netinu alvarlega. Dómaranum var hins vegar ekki skemmt.
„Hvað er fyndið við þetta? Hann veit ekki hverjir fylgjendur hans eru. Hann veit ekki hvort að einhver muni taka tilboðinu alvarlega. Hann er að fara fram á árás á aðra manneskju fyrir 5.000 dollara,“ sagði dómarinn.
Leyniþjónusta Bandaríkjanna jók öryggisgæslu sína í kringum Clinton sem er nú að kynna nýútkomna bók sína. Leitaði hún einnig eftir viðtali við Shkreli vegna tístsins.
Vegna uppátækja sinna þarf Shkreli nú að dúsa í hámarksöryggisfangelsi þar sem refsing hans verður ákveðin í janúar. Hann á yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi.

