Lífið

Skilyrði fyrir hlaupavinina að vera með góðan húmor

Guðný Hrönn skrifar
Tobba og Kalli eru stödd á Ítalíu en þau láta það ekki stoppa hlaupaundirbúninginn. 
Tobba og Kalli eru stödd á Ítalíu en þau láta það ekki stoppa hlaupaundirbúninginn. 
Þorbjörg Marinósdóttir, Karl Sigurðsson og ljósmyndarinn Íris Ann skipa hlaupahópinn Vinir Stefáns Karls, en hópurinn ætlar að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í næsta mánuði og safna fyrir vin sinn, leikarann Stefán Karl, sem greindist með gallgangakrabbamein haustið 2016.

„Við erum þrjú í hópnum núna en það eru fleiri að bætast við, Sigvaldi Kaldalóns útvarpsmaður og Þóra Sigurðardóttir fjölmiðlakona ætla til dæmis að vera með,“ segir Tobba. „Og við tökum glöð á móti fleiri hlaupurum. Við höfum bara eina reglu: það þurfa allir að hafa mikinn húmor og hlýtt hjarta, og þá má fólk hlaupa með.“

Stefán er svo lífsglaður og dásamlegur maður, hann segir alltaf: „Ég er ekki með krabbamein í húmornum,“ og við ætlum að hlaupa með þetta viðhorf að leiðarljósi. Við ætlum bara að hafa þetta skemmtilegt. Allir geta verið með, jafnvel þó að fólk kunni ekki að hlaupa. Ef það kann að hafa gaman þá er það nóg því það fara bara allir á sínum hraða.“

Upphæðin sem hlaupahópurinn nær að safna mun skiptast jafnt milli Stefáns Karls og Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Tobba segir veikindi Stefáns setja stórt fjárhagslegt strik í reikninginn hjá honum og fjölskyldu hans.

„Fólk áttar sig kannski ekki endilega á því en þegar fólk veikist svona eins og Stefán þá fara gjarnan allar tekjur heimilisins í veikindin. Og það er ekki gott að vera með áhyggjur af peningum ofan á allt hitt.“

Stefán Karl á afmæli 10. júlí og Tobba segir hugmyndina á bak við hlaupið hafa kviknað þegar afmælisdagurinn hans nálgaðist. „Þá fórum við að hugsa hvað við gætum gefið honum. Svo ákvað ég að í staðinn fyrir að hlussa í afmælisköku þá myndi ég bara hlussa mér áfram í Reykjavíkurmaraþoninu og búa til peninga í leiðinni. Honum finnst það miklu fyndnara.“

Setja engin tímametTobba og Kalli eru stödd á Ítalíu þessa stundina og eru byrjuð að æfa sig fyrir hlaupið. „Já, við höfum verið að hlaupa og hjóla hérna úti. Ég hef oft verið í betra hlaupaformi, en það skiptir engu máli. Markmiðið er bara að klára þetta og gera eitthvað gott í leiðinni. Við erum ekkert að fara að setja nein tímamet, en við höfum alveg hlaupið oft áður og Kalli er fínasti hlaupari,“ útskýrir Tobba.

Spurð út í hvort hún sé búin að segja Stefáni Karli frá hlaupagjörningunum segir Tobba: „Já, hann veit af þessu og Steinunn Ólína, konan hans líka. Steinunn, sem er góð vinkona mín, var ofboðslega þakklát og hrærð. Og áður en ég fór til Ítalíu þá kvaddi hún mig með þessum orðum: „Mundu að pasta er djöfullinn,“ þannig að hún vill greinilega ekki að ég hlaupi í spik hérna úti. Hún vill að ég hlaupi áfram fyrir Stefán,“ segir Tobba og hlær.

Að lokum hvetur Tobba áhugasama til að leggja verkefninu lið með því að styrkja hópinn í gegnum www.hlaupastyrkur.is. „Við erum bara þakklát fyrir allt sem kemur. Og ég veit að Stefán og fjölskylda kunna að meta stuðninginn.“

„Maður vill hjálpa í þessum erfiðum aðstæðum en það er kannski takmarkað sem maður getur gert. Þannig að við þurfum mikið á því að halda að fólk styrki okkur og líka að fólk hlaupi með okkur. Ég elska þau sjúklega mikið,“ segir Tobba klökk. „Og það skipir mestu máli að þau finni fyrir stuðningi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.