Fótbolti

Katrín: Við erum með geggjaða liðsheild en Frakkarnir eiginlega enga

Tómas Þór Þórðarson í Ermelo skrifar
Katrín Ásbjörnsdóttir var brött á æfingu í dag.
Katrín Ásbjörnsdóttir var brött á æfingu í dag. vísir/vilhelm
Katrín Ásbjörnsdóttir var fyrsti varamaður inn af bekknum á móti Frakklandi í gær þegar stelpunar okkar töpuðu, 1-0, í fyrsta leik liðsins á EM 2017 í Hollandi.

Svekkelsið var gríðarlega mikið enda frammistaða liðsins mjög góð. Katrín viðurkennir að hún hvarf ekki inn í draumalandið um leið og höfuðið snerti koddann í gær.

„Maður var svolítið lengi að sofna en maður náði að festa svefn á endanum. Við tókum góðan fund áðan um leikinn í gær og nú er það bara næsti leikur á laugardaginn,“ segir Katrín en stelpurnar æfðu í Ermelo í morgunsárið.

„Stemningin var bara fín í morgun. Við vorum sáttar með okkar leik og það sem við gerðum. Við gerðum góða hluti á móti þeim. Við áttum alla baráttu í þessum leik og vorum óheppnar að fá þetta víti á okkur í lokin.“

Katrín kom inn af bekknum í seinni hálfleik og stóð sig vel. Hún vildi ólm reyna að bæta sóknarleik liðsins sem var nokkuð stirðbusalegur.

„Ég vildi hjálpa til við að halda boltanum betur framar á vellinum og færa liðið framar. Við þurftum að gera það síðasta korterið. Það gekk brösulega en við fengum færi þar sem við hefðum getað gert betur.“

Katrín er virkilega ánægð með samheldnina í íslenska liðinu en hún segir muninn á stemningunni innan íslenska liðsins og því franska svakalega.

„Við erum með geggjaða liðsheild en þær eiginlega enga. Það sást bara á þeim og á bekknum. Þeir sem voru á bekknum hjá okkur voru að hvetja og öskra inn á en það sást ekki hinum megin. Við bara áttum alla baráttu, leikgleði og allt fram yfir þær,“ segir hún.

Dómari gærkvöldsins átti skelfilegan dag. Þá er ekki bara um rætt vítaspyrnudómurinn frægi heldur var sú ítalska í ruglinu nánast frá fyrstu mínútu.

„Dómarinn virtist ekki vera með tök á leiknum. Þetta var alveg úr takti þessi vítaspyrna sérstaklega. Frekar hefði hún átt að dæma sjö önnur víti. En svona er þetta. Þetta er fótbolti og þetta getur verið sárt,“ segir Katrín Ásbjörnsdóttir.


Tengdar fréttir

Fimm mínútum frá fullkomnun

Stelpurnar okkar voru aðeins fimm mínútum frá því að ná frábærum úrslitum á móti einu besta liði heims í fyrsta leik liðsins á EM 2017. Umdeildur vítaspyrnudómur gerði út um vonir stelpnanna sem sýndu að þær eru meira en tilbúnar í þetta mót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×