Það hefur lengi verið kallað eftir harðari reglum í tengslum við niðurskurð MMA-bardagakappa en þeir hafa á stundum lagt líf sitt í hættu í niðurskurði fyrir bardaga.
Nú hefur íþróttasamband Kaliforníu ákveðið að ríða á vaðið með nýjar og harðari niðurskurðarreglur fyrir UFC 214 sem fer fram í Anaheim í Kaliforníu. Bardagakvöldið fer fram þann 29. júlí.
Dana White, forseti UFC, styður þessar nýju reglur en er ekki sammála því að það þurfi að fjölga þyngdarflokkum í íþróttinni. Það er líklega umræða fyrir seinni tíma.
Helstu stóru breytingarnar sem verða í Kaliforníu eru þær að læknir verður að samþykkja að bardagakappi sé hæfur til þess að taka þátt í ákveðnum þyngdarflokki. Bardagakappar munu fá hærri sektir ef þeir ná ekki þyngd og þeir sem þyngjast um meira en 10 prósent af þyngd sinni á milli vigtunar og bardaga gætu verið neyddir til þess að hækka sig upp um þyngdarflokk í framhaldinu.
Allar þessar aðgerðir hafa það að leiðarljósi að bardagakapparnir séu að taka þátt í þeim þyngdarflokki sem er nálægt þeirra þyngd dags daglega.
Margir hafa lent inn á spítala við að reyna að léttast of mikið og í raun hefur ekki verið spurning um hvor heldur hvenær einhver myndi látast í þessum lífshættulega niðurskurði. Enginn hefur dáið enn sem komið er en menn hafa skaðað líffæri og annað í erfiðum niðurskurði.
Verður áhugavert hvort fleiri fylki fylgi í fótspor Kaliforníu og tekið verði af festu á þessum vanda í MMA-heiminum.
