Jeremy Corbyn, formaður breska Verkamannaflokksins, hefur snúist hugur og segist nú ætla að mæta í sjónvarpskappræðurnar sem sýndar verða í bresku sjónvarpi í kvöld. Corbyn og Theresa May, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, höfðu áður sagst ekki ætla að mæta.
Ólíkt Corbyn segist May ekki mæta í sjónvarpssal og kveðst þess í stað ætla að svara spurningum kjósenda víðs vegar um landið.
Sjónvarpskappræðurnar verða sýndar á BBC í kvöld þar sem fulltrúar Verkamannaflokksins, Íhaldsflokksins, Frjálslyndra demókrata, UKIP, Skoska sjálfstæðisflokksins, Græningja og Plaid Cymru verða til svara. Innanríkisráðherrann Amber Rudd verður þar fulltrúi Íhaldsflokksins.
Þingkosningar fara fram í Bretlandi þann 8. júní. Fljótlega eftir að boðað var til kosninga sagðist May ekki ætla að taka þátt í sjónvarpskappræðum. Corbyn sagðist þá ekki heldur ætla að taka þátt nema ef May myndi mæta til leiks.
Corbyn tilkynnti svo um þátttöku sína um miðjan dag í dag og sagði að það væri skýrt merki um veikleika May, myndi hún ákveða að forðast að mæta honum í sjónvarpssal til að ræða þau mál sem brenna á breskum kjósendum.
Ný skoðanakönnun YouGove sem gerð var fyrir The Times bendir til að Íhaldsflokkurinn muni ekki takast að ná hreinum meirihluta í kosningunum.
Stjarnan
KR