Enski boltinn

Fullyrt að Rooney hafi verið handtekinn vegna ölvunaraksturs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney sneri aftur til Everton í sumar.
Wayne Rooney sneri aftur til Everton í sumar. visir/getty
Wayne Rooney var handtekinn seint í gærkvöldi, grunaður um ölvunarakstur. Þetta er fullyrt á vefsíðu enska götublaðsins The Mirror.

Rooney hafði verið úti að skemmta sér en hann er í fríi þessa dagana þar sem að það er landsleikjafrí í ensku úrvalsdeildinni. Hann tilkynnti á dögunum að hann væri hættur að gefa kost á sér í enska landsliðið. Rooney er markahæsti leikmaður enska liðsins frá upphafi.

Rooney mun hafa verið handtekinn skammt frá heimili sínu í Chesire, þar sem hann hefur búið síðustu tólf árin með fjölskyldu sinni. Hann og Coleen, eiginkona hans, eiga þrjú börn og von á því fjórða.

Hann er á mála hjá Everton en hann gekk í raðir uppeldisfélags síns í sumar eftir að hafa verið síðustu þrettán árin á mála hjá Manchester United.

Það skal tekið fram að þegar þetta er skrifað hefur hvorki BBC né Sky Sports fjallað um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×