Erlent

Brexit-viðræður ganga illa

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
David Davis og Michel Barnier fara fyrir samninganefndum Bretlands og ESB.
David Davis og Michel Barnier fara fyrir samninganefndum Bretlands og ESB. Fréttablaðið/EPA
Enginn markverður árangur hefur náðst í lykilatriðum í samningaviðræðum Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu Breta úr sambandinu. Frá þessu greindi Michel Barnier, sem fer fyrir samninganefnd ESB, í gær. Sagði hann að enn bæri mikið í milli og ekki væri hægt að hefja viðræður um væntanlega fríverslunarsamninga í bráð.

David Davis, Brexitmálaráðherra Bretlands, hvatti Evrópusambandið í gær til þess að vera sveigjanlegra í nálgun sinni á viðræðurnar. Sagði hann að að sínu mati hefði einhver árangur náðst í þriðju lotu samningaviðræðna sem fóru fram í Bruss­el nýverið.

Davis og Barnier héldu sameiginlegan blaðamannafund í gær og þótt málflutningur Barniers hafi þótt neikvæður sagði hann að einhver árangur hefði þó náðst í viðræðum um samband Írlands og Norður-Írlands.

Barnier sagðist orðinn óþolinmóður. „Ég er ekki reiður, ég er óþolinmóður og ég er staðráðinn í að ná einhverjum árangri í þessum viðræðum,“ sagði hann.

„Í júlí viðurkenndi Bretland að ríkið þyrfti að virða skuldbindingar sínar eftir útgöngu en nú hefur Bretland útskýrt þá afstöðu sína að þær skuldbindingar hverfi með síðustu greiðslu til Evrópusambandsins fyrir útgöngu,“ sagði hann enn fremur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×