Innlent

Kári Stefánsson hlýtur æðstu viðurkenningu Bandaríska mannerfðafræðifélagsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar, mun veita verðlaununum viðtöku í október.
Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar, mun veita verðlaununum viðtöku í október. Vísir/Vilhelm
Bandaríska mannerfðafræðifélagið (The American Society of Human Genetics) hefur sæmt Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, æðstu viðurkenningu sinni, William Allan-verðlaununum.

Í fréttatilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu segir að verðlaunin hljóti vísindamaður sem þykir hafa skilað stóru og yfirgripsmiklu framlagi til rannsókna í mannerfðafræði.

Kári mun veita William Allan-verðlaununum viðtöku á ársþingi Bandaríska mannerfðafræðifélagsins í Orlando í Flórída þann 18. október næstkomandi og flytja fyrirlestur samhliða viðtökunni.

Starf Kára orðið fyrirmynd rannsókna í öðrum löndum

Í tilkynningu frá Bandaríska mannerfðafræðifélaginu segir að Kári hafi stofnað Íslenska erfðagreiningu árið 1996 með það að markmiði að gera umfangsmiklar erfðarannsóknir á Íslandi. Vinna Kára hafi orðið fyrirmynd svipaðra rannsókna í öðrum löndum, þar á meðal Breska lífbankans (UK Biobank) og „Við öll“-verkefnisins (All of Us Initiative) í Bandaríkjunum.

Þá er einnig rakið í tilkynningunni að Kári hafi beitt aðferðum sem geri kleift að tengja og bera saman hundruð ólíkra arf- og svipgerða, og það hafi leitt til þýðingarmikilla uppgötvana.

„Rannsóknir þeirra hafi einnig varpað ljósi á grundvallarferli í líffræði, svo sem endurröðun erfðavísa, nýjar stökkbreytingar og áhrif foreldra á erfðaefni barna sinna,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Bandaríska mannerfðafræðifélagið, sem stofnað var árið 1948, er talið standa fremst allra fagfélaga í erfðafræði mannsins í heiminum í dag að því er segir í fréttatilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu. Félagsmenn eru nærri 8000 frá öllum heimshornum og koma úr röðum vísindamanna, háskólakennara, lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra sem tengjast mannerfðafræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×