Viðskipti innlent

Illugi Gunnarsson verður stjórnarformaður Byggðastofnunar

Sveinn Arnarsson skrifar
Illugi Gunnarsson.
Illugi Gunnarsson. Vísir/Anton Brink
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra í síðustu ríkisstjórn, verður á morgun settur stjórnarformaður Byggðastofnunar á ársfundi stofnunarinnar sem haldinn verður í Skagafirði. Þetta herma öruggar heimildir Fréttablaðsins.

Herdís Á. Sæmundardóttir hefur setið undanfarin tvö ár sem formaður stjórnar en hún var sett í embætti í apríl 2015 af Sigurði Inga Jóhannssyni, þáverandi ráðherra byggðamála og núverandi formanni Framsóknarflokksins.

Núverandi ráðherra byggðamála, Jón Gunnarsson, ætlar því að skipta um stjórnarformann og velur hann Illuga til verksins.

Fréttablaðið hefur ekki heimildir fyrir því hvort fleiri breytingar verði á stjórn Byggðastofnunar sem hefur styrkt sig mikið síðustu árin.

Illugi Gunnarsson hóf þingmennsku árið 2007 og sat á Alþingi fram að síðustu kosningum. Hann tók sér rúmlega árs leyfi frá þingstörfum á árunum 2010 og 2011 vegna stjórnarsetu í peningamarkaðssjóðum Glitnis sem voru til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara.

Byggðastofnun hefur síðustu ár skilað myndarlegum afgangi þrátt fyrir að markmið stofnunarinnar sé að veita lán til staða sem markaðurinn telur sig ekki geta lánað til. Til að mynda skilaði stofnunin rúmlega 150 milljóna króna hagnaði í fyrra og er eigið fé hennar tæpir þrír milljarðar króna.

Árslaun stjórnarformanns Byggða­stofnunar voru um 2,4 milljónir króna í fyrra.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×