Innlent

Hulin útivistarperla í fögrum skógarsal í jaðri borgarinnar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fjögur skógræktarfélög er búin að skapa útivistarperlu í sunnanverðum Hvalfirði í innan við klukkustundar akstursfæri frá Reykjavík. Fjallað var um svæðið í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Ísland í sumar þar sem bæjarfulltrúinn fyrrverandi úr Kópavogi, Bragi Michaelsson, fylgdi áhorfendum um jörðina Fossá, sem hann kallar perlu og paradís. 

Fossinn og réttin við þjóðveginn eru það sem vegfarendur kannast helst við en meðan hringvegurinn lá enn um Hvalfjörðinn tóku menn vart eftir litlu trjáplöntunum sem voru að byrja að gægjast upp úr jörðinni. Þær eru nú orðnar að stórum skógi með göngustígum og fögrum skógarlundum.

 

Bragi Michaelsson sýnir hæstu trén, sem nálgast tíu metra, og stækka ört.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Bragi Michaelsson hefur lengi verið í forystusveit Skógræktarfélags Kópavogs, sem á helming Fossárjarðarinnar á móti skógræktarfélögum Mosfellinga, Kjalnesinga og Kjósverja. Síðasti bóndinn á Fossá, Björgvin Guðbrandsson, vildi að jörðin yrði klædd gróðri og ákvað því að selja hana skógaræktarfélögunum, sem hófu gróðursetningu árið 1973. 

Árangurinn á þessum 44 árum sjá menn með því að ganga um skógarstígana sem bjóða upp á skemmtilega hringleið þar sem hæstu trén nálgast tíu metra. Skjólsæll Fossárdalurinn er orðinn skógarsalur sem myndar áhugavert útivistarsvæði en dýrðina má sjá hér í þættinum Ísland í sumar.

Horft inn Fossárdal, sem er að verða samfelldur skógarsalur.Stöð 2/Sigurjón Ólason.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×