Innlent

Almenningur leggi til hugmyndir

Sæunn Gísladóttir skrifar
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra.
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra. Vísir/Anton Brink
Vinna við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er hafin og hefur verið opnað sérstakt vefsvæði tileinkað vinnunni á slóðinni www.co2.is. Almenningur er hvattur til að senda hugmyndir og tillögur að aðgerðum til verkefnisstjórnar á netfangið loftslag@uar.is.

„Það er mín staðfasta trú að til þess að aðgerðir í loftslagsmálum geti raunverulega virkað þá verða þær að vera þannig útbúnar og þeim þannig hagað að allir í samfélaginu komi að þeim,“ segir Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra.

„Alveg frá byrjun hef ég lagt áherslu á það að við séum ekki bara nokkur ráðuneyti eða stjórnsýslan að vinna að því ein og sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þetta er mál sem snertir alla, atvinnulífið, sveitarfélögin og einstaklinga. Til að við náum markmiðum okkar sem eru metnaðarfull þá þurfum við að gera margt og við erum bara einfaldlega að kalla eftir hugmyndum almennings um leiðir til að draga úr losun kolefnis,“ segir Björt.

Gert er ráð fyrir að aðgerðaáætlunin liggi fyrir í lok árs 2017 en með henni er stefnt að því að setja fram aðgerðir sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og auka bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti.

Ætlunin er að birta jafnóðum á vefsvæðinu þær tillögur sem berast en þar er einnig að finna ýmsar upplýsingar er tengjast vinnunni við aðgerðaáætlunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×