Innlent

Tvær og hálf milljón safnast fyrir Láru

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vinkonur Láru, þær Anna Elvíra, Ida Björg og Jara Fatíma, hófu söfnunarátakið fyrir um viku síðan.
Vinkonur Láru, þær Anna Elvíra, Ida Björg og Jara Fatíma, hófu söfnunarátakið fyrir um viku síðan.
Rúmlega tvær og hálf milljón hafa safnast fyrir Láru Sif Christiansen sem lenti í alvarlegu reiðhjólaslysi í maí síðastliðnum með þeim afleiðingum að hún lamaðist fyrir neðan brjóst. Þar af hefur eiginmaður hennar, Leifur Grétarsson, safnað tæplega 1,8 milljón króna.

Aðstandendur Láru hófu söfnunina og sögðust vinkonur hennar í samtali við Vísi í síðustu viku vilja aðstoða hana við að komast í endurhæfingu erlendis. Í framhaldinu hafa fjölmargir ákveðið að hlaupa fyrir Láru, líkt og sjá má á síðunni Hlaupastyrkur.is, en þar má heita á hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst.

Eiginmaður hennar segist sömuleiðis ætla að gera allt sem hann geti til þess að koma Láru sinni aftur á fætur, líkt og hann orðar það á síðu sinni.

„Ég ætla að hlaupa fyrir hana og safna áheitum svo hún geti fengið bestu endurhæfingu sem völ er á til að hámarka líkur á sem mestum bata,“ segir hann á síðunni Hlaupastyrkur. Líkt og staðan er nú hefur enginn annar einstaklingur safnað eins hárri fjárhæð og Leifur, en hann ætlar að hlaupa hálfmaraþon eða 21 kílómetra.

Lára var á hjóli í Öskjuhlíð þegar slysið varð og er hún nú í endurhæfingu á Grensás. Óvíst er þó hvort hún komi til með að endurheimta mátt sinn aftur. Vinkonur hennar, sem jafnframt eru samstarfskonur hennar hjá Icelandair, þar sem þær starfa sem flugmenn, tóku sérstaklega fram að Lára og aðstandendur hennar takist á við áfallið með algjöru æðruleysi og bjartsýni að leiðarljósi.

Hér má finna áheitasíðu Láru.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×