Erlent

„Hann var með hnífinn og óð í lögreglumanninn“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikill viðbúnaður var í London.
Mikill viðbúnaður var í London. Vísir/EPA
Sjónarvottar að árásinni við breska þingið fyrr í dag lýsa henni með miklum hryllingi. Fimm eru látnir, þar með talið árásarmaðurinn, og um fjörutíu eru særðir. Lögregla telur að maðurinn sé tengdum íslömskum öfgatrúarhópum.

„Við vorum að labba að lestarstöðinni þegar við heyrum skell og sjáum einhvern keyra á vegfarendur. Þeir lágu þarna bara og allir sem voru á brúnni hlupu burt,“ sagði Rick Longley sem varð vitni að árásinni og sá árásarmanninn ráðast á lögreglumanninn sem lést.

„Hann var með hnífinn og óð í lögreglumanninn. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,“ sagði Astley.

Smella má á myndina til að sjá stærri útgáfu.Vísir/Graphic news
Lögreglumaðurinn lést af sárum sínum skömmu seinna þrátt fyrir endurlífgunartilraunir á staðnum. Hann er einn fjögurra fórnarlamba árásarinnar en þrír til viðbótar létust einnig í árásinni, auk árásarmannsins.

Myndband sem BBC hefur birt sýnir árásarmanninn keyra á fullum hraða yfir Westminster-brúnna við þinghúsið. Þar keyrði hann niður vegfarendur og á myndbandinu má meðal annar sjá konu falla af brúnni niður í Thames-ánna. Henni var skömmu síðar bjargað og er hún á lífi.

Meðal þeirra sem hann ók á voru þrír lögreglumenn, erlendir nemendur frá Frakklandi og hópur suður kóreskra ferðamanna.

Því næst virðist árásarmaðurinn hafa keyrt á handrið eftir að hafa komist yfir brúnna. Þar steig hann úr bílnum áður en að hópur lögreglumanna nálgaðist hann. Réðist hann að þeim með hnífi og stakk einn þeirra til bana.

Hljóp hann af stað í átt að þinghúsinu og virðist hann hafa ætlað að komast inn. Óeinkennisklæddir lögreglumenn reyndu að stöðva manninn og vöruðu hann við því að þeir myndu skjóta myndi hann ekki gefast upp. Maðurinn sinnti ekki aðvörunum lögreglumannanna sem skutu hann til bana.

Lögreglan telur að hann hafi verið einn að verki. Mark Rowley, yfirmaður Scotland Yard, í London segir að lögreglu gruni að árásarmaðurinn sé tengdur íslömskum öfgatrúarhópum. Verið er að rannsaka hvort maðurinn hafi átt sér vitorðsmenn.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands hefur fordæmt árásina, sem og þjóðarleiðtogar víða um heim. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð vegna árásarinnar sem rannsökuð er sem hryðjuverk.


Tengdar fréttir

„Þetta er óþægileg tilfinning“

Garðar Agnarsson Hall starfar sem matreiðslumeistari hjá lávarðadeild breska þingsins og er ásamt öðrum starfsmönnum lokaður inni í húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×