Skoðun

Já, í alvöru

Elín M. Stefánsdóttir skrifar
Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA) var snöggur að svara en innihaldið var fremur rýrt.

Að vernda lífríki sitt er göfugt og verðugt markmið. Ekki er hægt að líkja því við ástandið í Norður-Kóreu þar sem framin eru mannréttindabrot. Önnur ríki ganga gríðarlega langt í að vernda sitt lífríki. Jafnvel svo langt að skanna farangur ferðamanna og taka þar úr matvæli og önnur fræ sem gætu mögulega skaðað það lífríki sem bíður handan við rauðu línuna.

Tollvernd og önnur vernd fyrir innlenda lifnaðarhætti er til þess m.a. að standa vörð um íslenskan landbúnað sem er einstakur. Framkvæmdastjóri FA er snöggur að bjóða fram innflutning umbjóðenda sinna ef eitthvað bjátar á heima fyrir en þegir þunnu hljóði þegar hneykslismálin reka hvert á fætur öðru í matvælaiðnaði í Evrópu.

Vernd í hvaða formi sem er, er viðbragð okkar þegar eitthvað þarf að varðveita. Því kasta ég hér aftur fram því sem liggur þungt á mörgum okkar.

Það er verulegt umhugsunarefni hvernig stjórnvöld (hver sem þau nú verða) ætla að vernda innlenda framleiðslu á komandi árum. Það er talað um kolefnisjöfnun og kolefnisspor og sýklalyfjalaus matvæli og heilnæm matvæli og sjálfbærar byggðir o.s.frv o.s.frv. Ætla stjórnvöld hér að fylgjast með því að matvælin sem eru flutt inn séu framleidd við sambærilegar aðstæður og hér? Að reglugerðum sé fylgt eftir varðandi sýklalyfjanotkun, aðbúnað, dýravernd, útivist kúa, laun verkamanna og svo má lengi telja. Ætlar FA að standa undir þeim kostnaði?

Í alvöru?



Höfundur er bóndi og stjórnarmaður í Auðhumlu svf. 


Tengdar fréttir

Er tollvernd á pari við mannréttindabrot?

Hver er munurinn á vernd og réttindum? Spyr sá sem ekki veit. Ég hefði haldið að ef ég banna barninu mínu að fá nammi á laugardögum væri ég að vernda það fyrir þeirri óhollustu sem sykur er, en kannski er ég að brjóta á mannréttindum þess?

Í alvöru?

Elín M. Stefánsdóttir, bóndi og stjórnarkona í Auðhumlu, móðurfélagi Mjólkursamsölunnar, skrifar grein um tollvernd á búvörum á Vísi í dag og skammar framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda.




Skoðun

Sjá meira


×