Sænska söngkonan Zara Larsson skellti sér í Bláa lónið með vinkonum sínum fyrir tónleikana sem hún heldur í Laugardalshöll í kvöld. Hún birti í nótt myndir af sér í lóninu þar sem hún sagði líkama sinn og sál vera hreinsaða eftir baðferðina.
Þá fagnaði hún því að vera komin með fjórar milljónir áskrifenda á Instagram.
Zara hefur notið mikilla vinsælda síðustu misseri með lögum á borð við Lush Life, So Good og This One's For You, en það síðastnefnda var opinbert lag EM 2016 og kannast eflaust margir Íslendingar við það lag.
Zara er Íslandsvinur og tók hún meðal annars myndbandið við smellinn Never Forget You upp á Íslandi.
