Skoðun

Þau eru of mörg Akranesin

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Enn einu sinni eru málefni sjávarútvegsins og byggða í brennidepli. Hvað sem sagt er um gæði fiskveiðistjórnunarkerfisins má setja stórt spurningamerki við sjálfbærni atvinnugreinarinnar. Sjálfbærni tiltekinnar greinar náttúrunytja er skilgreind með þrennum hætti: Áhrifum á náttúruna (á auðlindina sjálfa), á samfélagið í heild og sérhvern hluta þess sem atvinnan varðar og loks út frá efnahagslegum áhrifum nytjanna. Margreynt er að samþjöppun í kvótakerfinu veldur æ víðar og oftar ólíðandi vandræðum í samfélögum sem reiða sig að verulegum hluta á útgerð og fiskvinnslu.

Milli 10 og 20 fyrirtæki ráða nú um og yfir helmingi kvóta og þau taka ákvarðanir oftar en ekki eftir hag sínum einum en sjaldnar eftir þörfum byggða, sem þau starfa í, eða fara eftir því sem við nefnum samfélagslega ábyrgð. Með slík viðmið í huga er ekki hægt að setja merkið sjálfbærni á sjávarútveginn. Til þess eru of mörg byggðalög í sárum og of mikil óeining um kvótaúthlutun, kvótastöðu og samþjöppun kvóta.

Sé litið á efnahagsþátt sjálfbærninnar er nauðsynlegt að horfa bæði á heildina alla (greinina sem slíka), á vegferð hvers fyrirtækis og loks á ástand hverrar byggðar sem reynir og vill stunda útgerð og vinnslu. Góð afkoma heildarinnar, eins og gjarnan er orðað, má ekki yfirskyggja efnahagsþrengingar samfélaga eða minni fyrirtækja, svo dæmi séu nefnd. Fiskveiðistjórnunarkerfi sem tekur fyrst mið af velferð samfélaga í ólíkum byggðum (stórum og smáum) verður að taka fram yfir kerfi sem snýst fyrst og fremst um hagkvæmni stakra og stórra fyrirtækja og samkeppnistöðuna utanlands. Í heimi þar sem matvælaframleiðsla verður sífellt stærri áskorun er Ísland í góðri stöðu. Það leyfir mikinn slaka á kröfum um samþjöppun í greininni. Löngu er kominn tími til gagngerra breytinga í sjávarútvegi, bæði hvað varðar auðlindanýtinguna sjálfa og afrakstur í þágu nærsamfélaga um allt land, þorra íbúa alls landsins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×