Innlent

44,3 milljóna halli á rekstri Ríkisútvarpsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Í tilkynningu segir að niðurstaðan skýrist í meginatriðum af árstíðabundinni sveiflu í rekstrinum.
Í tilkynningu segir að niðurstaðan skýrist í meginatriðum af árstíðabundinni sveiflu í rekstrinum. Vísir/GVA
44,3 milljóna króna halli var á rekstri Ríkisútvarpsins fyrstu sex mánuði ársins 2017, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Ríkisútvarpinu. Þó er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu á árinu sem hefur verið jákvæð undanfarin ár.

Í tilkynningu segir að niðurstaðan skýrist í meginatriðum af árstíðabundinni sveiflu í rekstrinum. Afkoma RÚV er að jafnaði neikvæði fyrri hluta árs en jákvæð á hinum síðari.

Þá segir einnig að tekjur RÚV hafi verið 3103 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 3006 milljónir á sama tímabili ársins 2016. Rekstrargjöld án afskrifta voru 2866 milljónir króna en 2761 á síðasta ári. Afskriftir voru 156 milljónir króna en 147 milljónir á samanburðartímabilinu.

Fjármagnsliðir voru enn fremur neikvæðir um 126 milljónir króna og lækka á milli ára vegna lækkunar skulda og vaxta. Þá hefur félagið haldið áfram niðurgreiðslu skulda eftir sölu á byggingarrétti við Efstaleiti 1 en stefnt er að áframhaldandi niðurgreiðslu skulda á næstu mánuðum þegar lokagreiðslur berast vegna sölunnar.

Um framtíðarhorfur RÚV segir í tilkynningunni að fjárhagsleg endurskipulagning og breytingaferli árið 2014 hafi skilað jákvæðri afkomi í rekstri frá þeim tíma.

Þá er unnið að innleiðingu nýrrar stefnu Ríkisútvarpsins til 2021 en þar er enn frekar „skerpt á sérstöðu RÚV sem almannaþjónustumiðils og dagskrárframboð verður þróað í samræmi við það,“ segir í tilkynningu. Í fyrra var einnig undirritaður þjónustusamningur til loka ársins 2019 en forsenda hans er að innheimt útvarpsgjald lækki ekki að raunvirði frá árinu 2016 og að tekjustofnar RÚV séu áfram samsettir af opinberum tekjum og auglýsingatekjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×