Fótbolti

Aron Einar: Við verðum að axla ábyrgð inni á vellinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, á von á því að lið Kósóvó freisti þess að sækja hratt á íslenska liðið þegar þau mætast í undankeppni HM 2018 í Shkoder í Albaníu annað kvöld.

Aron Einar ræddi við Vísi skömmu fyrir æfingu landsliðsins á Loro Borici-leikvanginum í hádeginu. Þar voru aðstæður til fyrirmyndar og völlurinn leit afar vel út.

Kósóvó er að taka þátt í sinni fyrstu undankeppni stórmóts enda stutt síðan að knattspyrnusamband landsins fékk inngöngu í FIFA og leyfi til að taka þátt í alþjóðlegum keppnum. Af þeim sökum er lið Kósóvó nokkuð óskrifað blað.

„Við reiknum með því að þeir komi hratt á okkur og við höfum að hafa varann á á fyrstu tíu mínútunum,“ sagði Aron Einar. „Svo gæti verið að þeir detti niður og beiti skyndisóknum en það er erfitt að segja til um það.“

„Þetta er svo nýtt lið og þjálfarinn að gera allt nýtt. Þeir fengu þrjá nýja leikmenn fyrir þennan leik - allt framherja - og það getur verið að þjálfarinn ákveði að breyta öllu. Þá þurfum við leikmenn sem eru inni á vellinum að axla ábyrgð og lesa það. Nýta okkur okkar reynslu.“

Hann segir að það sé öðruvísi að undirbúa sig fyrir leik gegn Kósóvó en mörgum öðrum liðum. „En við getum nýtt okkur það líka. Það er margt í þessu.“

Aron Einar segir að stemningin í hópi Íslands sé góð, eins og alltaf. „Það er alltaf gaman á æfingum. Þegar þú ert með mann eins og Sigga Dúllu í hóp þá er ekki annað hægt en að brosa,“ sagði brosmildur Aron Einar við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×