Viðskipti innlent

Koma Costco hefur áhrif á verðmat á bréfum í N1

Haraldur Guðmundsson skrifar
N1 rekur 29 þjónustustöðvar um land allt.
N1 rekur 29 þjónustustöðvar um land allt. Vísir/Vilhelm
Hagfræðideild Landsbankans hefur lækkað verðmat sitt á bréfum í olíufélaginu N1 úr 138,1 krónu á hlut í 132,9 krónur. Nýtt verðmat deildarinnar, sem Vísir hefur undir höndum, er aftur á móti 13,5 prósentum yfir dagslokagengi olíufélagsins í Kauphöll Íslands í gær sem var 117 krónur á hlut.

„Þrátt fyrir að Icelandair hafi farið úr viðskiptum við N1 í byrjun árs 2016 hafði það ekki mikil áhrif á niðurstöðu ársins, enda framlegð lítil af viðskiptunum. Kröftugur vöxtur ferðamanna skilaði sér í betri afkomu en vænst var. Hækkandi olíuverð og enn meiri staumur ferðamanna til landsins ætti því að leiða til vaxtar EBITDA á árinu 2017. En þrátt fyrir það gera stjórnendur ráð fyrir samdrætti milli ára,“ segir í uppfærða verðmatinu sem Hagfræðideild Landsbankans sendi áskrifendum sínum nú í morgun.

Costco opnar í Kauptúni í lok maí. Vísir/Ernir
Þar er bent á að samningsbundnar launahækkanir séu á leiðinni og vöxtur félagsins sé í vinnuafls frekari hluta rekstrarins. N1 hafi ekki mikla möguleika þegar komi að hagræðingu í launakostnaði. Samkeppni muni aukast í sumar með komu Costco sem mun opna fjölorkustöð í Kauptúni í Garðabæ í maí.

„N1 er ekki með stefnu um sama verð um allt land og því munu áhrifin verða mest á höfuðborgarsvæðinu. Sterkari staða félagsins á landsbyggðinni mun því koma því til góða og draga úr áhrifum yfirvofandi verðsamkeppni,“ segir í matinu og þar bent á að áhrifin af komu Costco verði mest í nágrenni stöðvarinnar í Kauptúni þar sem verð þurfi að lækka. 

Starfsmenn Landsbankans ráðleggja því fjárfestum að kaupa bréf í N1 líkt og þeir gerðu í verðmati sínu á félaginu þann 11. nóvember. Þeir benda á að rekstrarhagnaður olíufélagsins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) var 525 til 625 milljónum hærri í fyrra en stjórnendur N1 höfðu gert ráð fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×