Sunna hóf Invicta-ferilinn á flottum sigri gegn Ashley Greenwood eftir dómaraúrskurð en Sunna hafði yfirhöndina allan bardagann og ætlar sér stóra hluti í Kansas um helgina.
Pétur Marinó Jónsson, aðallýsandi Stöð 2 Sport í blönduðum bardagalistum, hefur eins og alltaf tekið saman þáttinn Leiðina að búrinu á vefsíðu sinni MMAFréttir.is þar sem Sunna Rannveig talar um upplifunina af síðasta bardaga og undirbúninginn fyrir bardagann um helgina.
„Ég bjóst við því að vera stressaðari í búrinu sjálfu en fyrir bardagann var fjölmiðladagur. Þá var myndataka, viðtal og myndbandsupptaka og ég fann að þar var ég rosalega stressuð. Ég var þurr í munninum og svolítið málhölt fannst mér. Þetta reddaðist samt allt og var rosalega góð reynsla. Þetta fer í reynslubankann og verður léttara næst,“ segir Sunna.
„Þegar kom að bardaganum sjálfum leið mér vel og ég var afslöppuð. Ég var með spennustigið rétt stillt. Loksins var ég komin þangað og þegar dómarinn sagði „fight“ sá ég ekkert nema andstæðinginn fyrir framan mig. Ég náði að loka á allt annað,“ segir Sunna Rannveig Davíðsdóttir.