Enski boltinn

Upphitun fyrir leiki dagsins: Heldur hörmungargengi Liverpool áfram?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sjö leikir fara fram í 25. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Stórleikur dagsins fer fram á Anfield klukkan 17:30 en þar mætast Liverpool og Tottenham Hotspur.

Liverpool er komið niður í 5. sæti deildarinnar eftir skelfilega byrjun á árinu 2017. Á meðan er Tottenham í 2. sætinu með 50 stig, níu stigum á eftir toppliði Chelsea sem mætir Burnley á morgun.

Liverpool hefur aðeins fengið þrjú stig út úr síðustu fimm deildarleikjum sínum á meðan Tottenham er taplaust síðan 11. desember.

Alfreð skoraði sigurmarkið síðast þegar Marco Silva mætti með lið sitt á Emirates.vísir/getty
Í hádeginu tekur Arsenal á móti Hull City. Portúgalinn Marco Silva hefur snúið gengi Hull við eftir að hann tók við liðinu. Tígrarnir náðu m.a. í fjögur stig í síðustu tveimur leikjum sínum sem voru gegn Manchester United og Liverpool.

Silva hefur einu sinni stýrt liði gegn Arsenal á Emirates. Það var haustið 2015 þegar Olympiakos vann 3-2 sigur á Arsenal í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Alfreð Finnbogason skoraði sigurmark gríska liðsins í leiknum.

Manchester United fær Watford í heimsókn klukkan 15:00. Watford vann fyrri leik liðanna á Vicerage Road, 3-1. Síðan þá hefur United aðeins tapað einum deildarleik.

United er í 6. sæti deildarinnar en Watford, sem hefur unnið tvö leiki í röð, í því tíunda.

Everton hefur spilað vel upp á síðkastið og mætir Middlesbrough á útivelli. Everton hefur unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum, jafn marga og Boro hefur unnið allt tímabilið.

Annað sjóðheitt lið, West Ham United, fær West Brom í heimsókn. Liðin er í 8.-9. sæti deildarinnar en fimm stig skilja þau að.

Sunderland, sem slátraði Crystal Palace í síðustu umferð, getur komist upp úr fallsæti með sigri á Southampton á Ljósvangi.

Þá mætast Stoke City og Crystal Palace á Bet365 vellinum í Stoke.

Leikir dagsins:

12:30 Arsenal - Hull (beint á Stöð 2 Sport HD)

15:00 Man Utd - Watford (beint á Stöð 2 Sport HD)

15:00 Middlesbrough - Everton

15:00 West Ham - West Brom

15:00 Sunderland - Southampton

15:00 Stoke - Crystal Palace

17:30 Liverpool - Tottenham (beint á Stöð 2 Sport HD)


Tengdar fréttir

Alli hafði betur gegn Gylfa

Dele Alli, miðjumaður Tottenham Hotspur, var valinn leikmaður janúarmánaðar í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×