Innlent

Hafa tjaldsvæðið opið í svartasta skammdegi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sigrún Kapitola Guðrúnardóttir ferðamálafræðingur rekur tjaldsvæðið á Höfn.
Sigrún Kapitola Guðrúnardóttir ferðamálafræðingur rekur tjaldsvæðið á Höfn. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Fjölgun ferðamanna á Höfn í Hornafirði utan háannatímans er orðin svo mikil að ákveðið er að tjaldsvæðið þar verði haft opið í allan vetur. Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Sigrúnu Kapitolu Guðrúnardóttur ferðamálafræðing, sem rekur tjaldsvæðið á Höfn.

Í huga flestra Íslendinga er tjaldútilegutíminn kannski frá miðjum júní og eitthvað fram yfir verslunarmannahelgi. Á Höfn býðst ferðamönnum hins vegar að tjalda meira að segja á þorranum því þar verður opið í allan vetur.

Séð yfir tjaldsvæðið á Höfn í Hornafirði núna í september.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Fáir þekkja breytingarnar betur en rekstraraðili tjaldsvæðisins, Sigrún Kapitola Guðrúnardóttir, sem hóf að þjónusta tjaldgesti fyrir átján árum. Hún segir að áður fyrr hafi verið opið í þrjá mánuði og aðsóknin fallið niður upp úr verslunarmannahelgi en núna sé septembermánuður eins og júní var fyrir fáum árum. Þannig hafi heildarfjöldi gesta verið 167 allan septembermánuð árið 2007. Í ár séu dæmi um hátt í 300 gesti á einum degi núna í september. 

„Þetta er bara að breytast svo gríðarlega,“ segir Sigrún Kapitola. 

Stóra breytingin sé fjölgun húsbíla, stórra sem smárra. Núna sé vel efnað miðaldra fólk að ferðast jafnvel á litlum húsbílum, eins og Kúkú Campers. Hún segir þessa gesti vilja sameina gistingu og bílaleigubíl til að lækka ferðakostnað. Þeir séu ekki tilbúnir að eyða kannski 300-400 þúsund krónum bara í gistingu í sex daga ferð um Ísland. 

Húsbílar á tjaldsvæðinu á Höfn.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Hún segir fjölgun húsbílanna þrýsta á lengri opnunartíma en segir þeim einnig fjölga sem velja að tjalda að vetrarlagi, meira að segja í frosthörkum. Mikið af því sé alvöru útivistarfólk með alvöru græjur sem hafi engar áhyggjur þótt það skelli á stormur. Hún býst þó ekki við fjölmenni á tjaldsvæðinu yfir háveturinn. 

„Smágóðgerðarstarf kannski að hafa opið yfir svörtustu vetrarmánuðina. En aðstaðan þarf að vera opin. Það þarf að vera þjónusta,“ segir Sigrún Kapitola. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×