Lífið

Afmælishald í Edinborg

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég var aðeins að leika í Eiðnum og held ég detti einhvers staðar inn í Föngum,“ segir Jakob Þór.
"Ég var aðeins að leika í Eiðnum og held ég detti einhvers staðar inn í Föngum,“ segir Jakob Þór. Vísir/Eyþór
„Fjölskyldan er í skemmtiferð. Ég og konan erum bæði sextug og svo erum við líka að halda upp á 40 ára brúðkaupsafmæli.“ Þetta segir Jakob Þór Einarsson leikari sem er í þann veginn að hoppa upp í flugvél þegar í hann næst. Stefnan er sett á Edinborg. „Við erum tíu saman,“ bætir hann við. „Börnin og tengdabörnin koma með okkur, ásamt vinahjónum þar sem frúin er að halda upp á sextugsafmæli líka.“

Jakob sló eftirminnilega í gegn á hvíta tjaldinu í myndum Hrafns Gunnlaugssonar, Óðali feðranna og Hrafninn flýgur. Einnig var hann lengi hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Hann starfar nú hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur en hefur þó ekki alfarið sagt skilið við leiklistina.

„Áður hafði ég aukastörf með leiklistinni, nú hef ég hana sem aukastarf. Það er einn og einn sem man eftir mér enn þá og biður mig að taka þátt í bíómyndum. Ég var aðeins að leika í Eiðnum og held ég detti einhvers staðar inn í Föngum. Svo vann ég lengi við talsetningar hjá fyrirtæki sem heitir núna Sýrland og kem þar við reglulega.“

Jakob Þór er nýfluttur upp á Skaga. „Konan mín, Valgerður Janusdóttir, var að taka við starfi sem sviðsstjóri skóla-og frístundamála á Akranesi. Við erum bæði þaðan og erum ægilega glöð að vera komin þangað aftur. Það eru hátt í 40 ár síðan ég bjó þar síðast. Skagamenn hafa boðið mig velkominn með því að hringja í mig og biðja mig að taka þátt í ýmsu sem snertir félagslífið.“



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. janúar 2017






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.