Erlent

Fellibylurinn Ófelía stefnir á Bretlandseyjar

Atli Ísleifsson skrifar
Ófelía er á leið frá Asoreyjum til Bretlandseyja.
Ófelía er á leið frá Asoreyjum til Bretlandseyja. Vísir/afp
Veðurstofan á Írlandi og Bretlandi hafa gefið út viðvaranir vegna fellibylsins Ófelíu sem mun skella á Írland á morgun. Stjórnvöld á Írlandi hafa boðað til neyðarfundar vegna komu Ófelíu, sem ku vera mesta óveður sem hefur skollið á Írland í hálfa öld að því er segir í frétt Irish Times.

Ófelía er á leið frá Asoreyjum til Bretlandseyja þar sem vindstyrkurinn mælist um 32 metrar á sekúndu.

BBC greinir frá því að Ófelía skelli á Bretlandseyjar nákvæmlega þrjátíu árum eftir „Storminn mikla“ árið 1987 þar sem átján manns fórust.

Íbúar hafa verið varaðir við að búast megi við rafmagnsleysi, miklum öldugangi og röskun á samgöngum þegar óveðrið gengur á land.

Ófelía mun að öllum líkindum ganga á land á suðvestanverðu Írlandi, fara yfir eyjuna og svo yfir norðurhluta Skotlands. Reiknað er með að Ófelía muni missa styrk þegar hún fer yfir Írland. Ófelía er nú flokkuð sem annars stigs fellibylur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×