FH tók Fram í bakaríið þegar liðin mættust í 1. umferð Olís-deildar karla í handbolta í gær. Lokatölur 26-43, FH í vil.
Eins og tölurnar gefa til kynna voru FH-ingar miklu sterkari aðilinn í leiknum og voru komnir með 15 marka forskot í hálfleik, 8-23.
FH-ingar léku við hvern sinn fingur, þá sérstaklega Ísak Rafnsson sem átti fullkominn leik þegar litið er á tölfræðisamantekt HBStatz.
Ísak skoraði 10 mörk úr jafn mörgum skotum, gaf tvær stoðsendingar og fiskaði tvö víti. Hann var einnig frábær í vörninni; varði sex skot, var með fimm löglegar stöðvanir og stal boltanum einu sinni. Þess má geta að Ísak varði fleiri skot í hávörn FH en Viktor Gísli Hallgrímsson í marki Fram.
Ísak fékk 10 í varnar- og sóknareinkunn hjá HBStatz og þ.a.l. 10 í heildareinkunn. Hann er fyrsti leikmaðurinn í Olís-deild karla sem fær 10 í einkunn hjá HBStatz á tímabilinu.
Í spilaranum hér að ofan má sjá brot af því besta frá frammistöðu Ísaks í gær.
Nánar verður fjallað um Ísak og leik FH og Fram í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport HD í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 20:00.

