Körfubolti

Nýr Kani Snæfells á sakavottorði fyrir smáglæp og fær ekki atvinnuleyfi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, fær ekki atvinnuleyfi fyrir sinn mann.
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, fær ekki atvinnuleyfi fyrir sinn mann. vísir/vilhelm
Botnlið Snæfells í Domino's-deild karla í körfubolta þarf að klára tímabilið án bandarísks leikmanns en nýr Kani þeirra fékk ekki atvinnuleyfi. Búið er að senda hann heim.

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, stefndi að því að frumsýna nýja manninn Christian Covile í kvöld í beinni útsendingu á móti Njarðvík þegar liðin mætast í lokaleik 13. umferðar deildarinnar.

Ekkert verður af því þar sem Covile er með smáglæp á sakaskrá frá háskóladögum sínum í Bandaríkjunum og fær því ekki atvinnuleyfi á Íslandi.

„Hann er með skólahrekk á sakavottorði,“ segir Ingi Þór í samtali við Vísi, en hrekkurinn snerist um að Covile og vinir hans skiptust á að fara inn í herbergi og íbúðir hvers annars og setja allt á hvolf með því að færa húsgögnin út um allt.

Covile gerði þetta við kærustu sína, að sögn Inga Þórs, en hún hafði engan húmor fyrir þessu uppátæki körfuboltamannsins. Hún kærði Covile sem var sakfelldur fyrir að fara inn í hús án leyfis.

„Útlendingastofnun sagðist þurfa að taka sér 6-8 vikur í að skoða málið en þá er tímabilið bara búið. Meira að segja þá var ólíklegt að hann myndi fá leyfi,“ segir Ingi Þór Steinþórsson.

Snæfell var með öflugan Bandaríkjamann, Sefton Barrett, á sínum snærum fyrir jól en hann yfirgaf Hólminn um áramótin. Nú þarf Snæfell, sem er á botninum eftir tólf umferðir án stiga, að spila án Bandaríkjamanns það sem eftir lifir leiktíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×