Lífið

NRK lokar fyrir erlenda áhorfendur Skam

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Frá og með deginum í dag munu NRK loka á aðgang áhorfenda utan Noregs.
Frá og með deginum í dag munu NRK loka á aðgang áhorfenda utan Noregs. NRK
„NRK eru ekki með réttindi til að sýna þennan þátt utan Noregs,“ eru nú skilaboðin sem blasa við Íslendingum ef þeir fara inn á skam.p3.no í þeim tilgangi að horfa á þættina Skam. Frá og með deginum í dag munu NRK loka á aðgang áhorfenda utan Noregs.

Ástæðan mun vera sú að samningarnir sem NRK hefur gert varðandi notkun á tónlist í eigin efni gera ekki ráð fyrir alþjóðlegri velgengni þáttanna. Þetta er gert eftir kröfu frá IFPI, alþjóðlegum samtökum tónlistarútgefenda.

NRK framleiddi þættina fyrir norska áhorfendur og því eru þættirnir til dæmis eingöngu með norskum texta, en þættirnir hafa notið vinsælda um allan heim. NRK segist vona að hægt sé að finna lausn í málinu sem fyrst svo að erlendir aðdáendur geti haldið áfram að fylgjast með vinunum í Hartvig-Nissen.

Óskar Steinn Jónínu Ómarsson er einn þeirra Íslendinga sem tekur fregnirnar nærri sér og brá hann á það ráð að senda fyrirspurn á Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, á Twitter. Solberg svaraði Óskari og benti honum á að spyrja Thor G. Eriksen, útvarpsstjóra NRK.

Eingöngu er hægt að horfa á fyrstu tvær þáttaraðirnar af þremur á vef RÚV og því verða íslenskri aðdáendur að bíða eftir að sú þriðja verði þýdd og halda í vonina að lausn náist áður en fjórða þáttaröðin fer í sýningu. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×