„Það sem háir Vestfirðingum er að þeir geta ekki sett upp litla vinnustaði einu sinni, það þarf að kaupa orku úr öðrum landshlutum,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps. Rafmagnið sem virkjunin á að framleiða er þó ekki ætluð til stóriðju af neinu tagi.
„Þetta er í rauninni ágætt ferli, að fólki gefist kostur á að senda athugasemdir, þannig að ég fagna því að þetta sé auglýst svona opinberlega,“ segir Elín Agla Briem, íbúi í Árneshreppi, en gagnrýnir annars fyrirhugaðar framkvæmdir.
Í tillögunum felst meðal annars heimild fyrir starfsmannabúðum á framkvæmdasvæðinu, vegir um virkjunarsvæðið verði skilgreindir og efnistökusvæði verði skilgreind við Hvalárósa, í Hvalá og við Hvalárvatn. Frestur til að skila athugasemdum er til 16. október.

Aðspurð um möguleg áhrif framkvæmdanna á ferðaþjónustu á svæðinu segir Eva oddviti hana hafa í för með sér línuveg yfir Ófeigsjarðarheiði og niður í Ísafjarðardjúp, sem gera myndi að verkum að á kæmist hringvegur sem yrði nýtanlegur yfir sumarið að minnsta kosti.
„Við erum flest á þeirri skoðun að þetta myndi opna nýjar víddir lengra norður á Strandir,“ segir Eva og lætur þess getið að hún sé sjálf frumkvöðull í ferðaþjónustu.
„Rafmagnið verður ekki leitt inn í Árneshrepp heldur út úr hreppnum og inn í djúp,“ segir Elín Agla Briem. Hún bætir við að framkvæmdirnar skapi hvorki störf né rafmagn fyrir hreppinn og bæti ekki samgöngur innan hans.
Þá gagnrýnir Elín Agla þennan virkjunarkost sérstaklega. „Hvaleyrarvirkjun er 55 megavattavirkjun en Landsnet hefur aðeins lýst sig reiðubúið að kaupa 10 megavött fyrir Vestfirði,“ segir Elín Agla og bætir við: „Það eru valkostir um miklu minni virkjanir á Vestfjörðum sem myndu uppfylla þessa 10 megavattaþörf með miklu minna raski en Hvalárvirkjun.“
Aðspurð segist Elín Agla ekki skilja áhuga meirihluta hreppsnefndarinnar fyrir virkjuninni.„Það eru einkafyrirtæki, HS orka og Alterna Power Corpuration í Kanada, á bak við þessa framkvæmd sem hugsa ekki um neitt annað en ágóða fyrir sig.“